Uppskrift: enska jólakakan ljúfa sem bræðir alla bragðlauka með sínu einstaka bragði að hætti fríðu á norðurbakkanum

Þriðji í aðventu er runninn upp og þá er lag að halda áfram að huga að gæðastundum með sínum uppáhalds og jafnvel baka uppáhalds kökuna eða prófa eitthvað nýtt.   Aðventan er heillandi tími og margir eiga góðar minningar tengdar aðventunni sem hlýja og gefa. Aðventan er dásamlegur tími til að njóta, skapa og útbúa ljúffengar kræsingar, líka tími til að búa til minningar með komandi kynslóðum. 

Sjöfn Þórðar heimsótti Málfríði Gylfadóttur Blöndal, sem er eigandi kaffihússins Norðurbakkans í Hafnarfirði sem er bæði bóka- og kaffihús að bestu gerð.  Sjöfn fékk Málfríði til að svara nokkrum spurningum tengdum aðventunni og undirbúningi jólanna á hennar heimili.  Málfríður, sem oftast er kölluð Fríða, er þekkt fyrir að baka dýrindis kökur, sem ávallt eru fagurlega skreytar.  Kræsingarnar á kaffihúsinu bera þess sterk merki auk þess að vera þekkt fyrir fjölbreytni og halda í gamlar og góðar uppskriftir sem minna gjarnan á gamla tímann, sem er algjör nostagalía.  Sjöfn fékk Fríðu jafnframt til að baka eina af sínum uppáhalds kökum sem tengist aðventunni og jólunum og svipta hulunni af uppskriftinni um leið.  Enska jólakakan er ein af hennar uppáhalds og á sér langa sögu.

\"\"

Bakar þú mikið?

Ég baka ekki mikið heima fyrir enda erum við bara tvær mæðgurnar í heimili. En þessa köku hef ég bakað einna oftast fyrir jól og piparkökur. Þegar ekki náðist að baka eða undirbúa mikið þá var ég ánægð ef enska jólakakan var bökuð og stelpurnar ánægðar með piparkökurbakstur.“

Á kakan sem þú bakaðir einhverja sögu?

Enska jólakakan eða ávaxtakakan á sér langa sögu og er hefðbundin, vinsæl kaka sem bökuð er tímanlega fyrir jól á Bretlandi og víða. Ég fór að baka hana á fyrstu búskaparárunum mínum í Ólafsvík og þá yfirleitt í byrjun nóvember til að geta bleytt hana reglulega með viskí eða rommi. Það er mjög gott að geyma hana í álboxi eða stórum kökudalli. Sum árin hef ég pantað svipaða köku frá Ameríku sem er líka afar góð. Ég hlakka til að smakka ávaxtaköku út í London núna þar sem ég mun verja jólunum hjá dóttur minni.“

Er mikið haft fyrir jólunum á þínu heimili?  

Það er mismikið sem ég geri fyrir jólin, fer eftir önnum og verkefnum en reyni að njóta þess vel sem ég geri og hafa minna stress í kringum þennan rómantíska tíma. En lifandi jólatré er ómissandi, má vera lítið í potti. Fallegt mismunandi greni hingað og þangað og í jólakrans á hurðina.“

Hvað finnst þér skemmtilegast við jólin?

Rólegheitin, bóklestur og matur sem maður er alla jafna ekki að gæða sér á. Ég er mjög heimakær en göngutúr í snjó eða stutt ferð út fyrir bæinn er líka yndisleg og frískandi frá bóklestrinum. Svo hef ég líka gaman af að horfa á vandaðar bíómyndir – þetta er allt gott í bland.“

Áttu þér uppáhalds jólaskraut?

Já, svo sannarlega. Það er jólabjallan mín sem ég fékk í jólagjöf frá ömmu minni á fyrstu jólunum mínum. Gyllt, ákaflega falleg skrautbjalla sem hægt er að láta spila Heims um ból og mér fannst alltaf svo jólalegt og í raun jólin ekki komin fyrr en bjallan var látin spilan lagið á aðfangadag.“

Áttu þér uppáhalds jólalag?

Ég hlusta mikið á kirkjulega tónlist á aðventunni og er Kór King’s College í Englandi í miklum metum hjá mér. Líka falleg íslensk kóralög eða sálmar og svo finnst mér jólalögin með Þrjú á palli ná upp gömlu stemningunni og það er nauðsynlegt líka.“

Heldur þú í hefðir í jólaundirbúningnum og/eða um jólin?

Skatan með stórfjölskyldunni á Þorláksmessu er ómissandi. Og kíkja á mömmu og pabba á aðfangadagsmorgunn og fá heimabakað brauð með nýsoðnu hangikjöti og fá svo eitt brauð með heim. Annars er ég ekki svo vanabundin með jólin, er tilbúin að prufa nýja hluti og borða alls ekki alltaf sama matinn og æ minna svínakjöt og kjöt yfirhöfuð.“

\"\"

Um Málfríði G. Blöndal – Uppáhaldslistinn

Maki:  Er einhleyp.

Börn: Dæturnar Guðrún Ylfa og María Rún

Gæludýr:  Lúlli minn kvaddi okkur fyrir um tveimur árum, uppáhaldskisan. Enginn hefur fyllt hans skarð.

Uppáhaldsjólamyndin:  Sænska myndin Fanný og Alexander er í miklu uppáhaldi hjá mér og The Shop around the corner (1940). Yndislegar og margar fleiri.

Ómissandi á aðventunni:  Bókaupplestrarnar á Norðurbakkanum, hringja næstum inn aðventugleðina hjá okkur. Endalaust af kertum – stundum kveiki ég ekki á rafljósi heldur aðeins kertaljós um öll herbergi og læt sem ekki séu til rafljós. Mér finnst það góð leið til að ná sér niður eftir annasama daga í vinnunni.

Jólamatur:  Ég er mikið fyrir mat eins og Frakkar hafa á jólunum, smáréttir, ostar, paté, geitaost ,fuglakjöt, margréttað.  Það hefur skapast rík hefð í fjölskyldunni minni að gera ís og er þá Sherrýísinn langbestur og varla jól án hans.

Jóladrykkur:Jólaglöggin finnst mér yndisleg. Ég reyni alltaf að njóta þess að fá mér hana í góðra vina hóp á aðventunni. Núna erum við með heita jólaglögg á Norðurbakkanum og það hefur vakið mikla lukku.

Hvít eða rauð jól?  Hvít jól allan daginn. Elska snjóinn og allt sem honum fylgir, sér í lagi í desember og um hátíðarnar.Draumurinn er alltaf að vakna á aðfangadagsmorgunn við alhvíta jörð og nýfallin snjó á trjánum og svo má bæta aðeins í bylinn seint um kvöldið þegar flestir eru komnir heim 

Hér má sjá uppskriftina hennar Fríðu af Ensku ávaxtakökunni ljúfu:

Ensk ávaxtakaka að hætti Fríðu

Ávaxtablandan gerð fyrst og geymd yfir nótt.

400 g trönuber

300 g kúrenur

200 g rúsínur

150 g súkkat

200 g kirsuber

200 g hnetur/möndlur

100 g saxaðar döðlur

100 g saxað súkkulaði

1 msk. rifinn appelsínubörkur

1 msk. rifinn sítrónubörkur

125 ml  viskí eða dökkt romm

Allt sett í skál, hrært saman og látið standa yfir nótt.

Daginn eftir er botninn bakaður í heild sinni.

220 g smjör

220 g púðursykur

1 tsk. kanill

1 tsk. allra handa

múskat á hnífsoddi

200 g hveiti

½ tsk. lyftiduft

3 egg

Byrjið á því að hita ofninn í 150°C gráður.  Setjið tvöfaldan bökunarpappír í botn og hliðar formsins (veljið kringlótt form).  Smjör og púðursykur er sett í pott og brætt saman og kælt í 10 mínútur. Síðan er ávaxtablöndunni bætt saman við, eggjum einu í einu og síðast hveiti, lyftidufti og kryddinu.  Bakað við 150°C gráður í 45 mínútur síðan er hitinn lækkaður í 140°C gráður í einn til einn og hálfan klukkutíma. Kælið kökuna og skreytið að vild.  Gaman er að skreyta með möndlum, kirsjuberjum og fleiru sem notað er í ávaxtablönduna.

Gleðilega aðventu.