Uppnám í valhöll vegna gallup-könnunar

Skoðanakönnun sem Morgunblaðið birti á skírdag olli Sjálfstæðismönnum gríðarlegum vonbrigðum. Þeir höfðu gert sér vonir um að nú væri komið að því að fylgi flokksins færi að mælast á uppleið og að unnt yrði að rífa upp stemningu vegna þess. Morgunblaðið tímasetti könnunina faglega í upphafi páskahátíðarinnar þegar blöðin eru mikið lesin. Það átti að fá könnun sem gæfi flokknum byr og yrði upphafið að snarpri og sigurstranglegri kosningabaráttu í apríl og mai.

 

En margt fer öðru vísi en ætlar er. Gallup-könnunin reyndist vera Samfylkingunni afar hagstæð, mældi hana með meira er 31% fylgi og 8 borgarfulltrúa á meðan Sjálfstæðisflokkurinn var með 27%, einungis 1.4 prósentustigum meira en vorið 2014 þegar flokkurinn galt sögulegt afhroð í höfuðborginni. Þessi stóra könnun sýnir að Sjálfstæðisflokkurinn virðist ekki ætla að ná sér á strik fyrir borgarstjórnarkosningarnar þetta vorið þó allt hafi verið lagt undir til að ná árangri. Stöðugur rógur Morgunblaðsins, Viðskiptablaðsins, Útvarps Sögu og ýmissa einstaklinga innan flokksins er greinilega ekki að hafa nein áhrif. Kjósendur láta lákúrulegan málflutning þeirra sem vind um eyru þjóta.

 

Það er að koma æ betur í ljós að Eyþór Arnalds nær ekki til kjósenda, hrífur þá ekki með, hann virkar ekki sem leiðtogi. Á sama tíma gerir fólk sér ljóst að Dagur B. Eggertsson er yfirburðamaður í borgarpólitíkinni og hann er sá sem kjósendur ætla að treysta fyrir borgarstjóraembættinu áfram. Spurningin snýst aðallega um það með hvaða tveimur flokkum Samfylkingin muni mynda áframhaldandi meirihluta.

 

Morgunblaðið hefur um páskana reynt að búa til fréttir sem troða Eyþóri fram í sviðsljósið. Það er grátbroslegt að fylgjast með þeim tilburðum. Hluti af Gallup-könnuninni snérist um það hvern kjósendur vildu fá sem borgarstjóra. Yfir 46% nefndu Dag en 29% bentu á Eyþór. Dagur þannig með yfirburði. Þá reyndi Morgunblaðið að milda þetta fyrir Sjálfstæðisflokkinn með því að láta þess getið að fleiri kjósendur í Breiðholti og öðrum úthvefum vildu Eyþór helst!  Morgunblaðið veit mætavel að Breiðholtin hfa ekki sérstakan borgarstjóra. Það er bara einn borgarstjóri í Reykjavík. Dagur naut fylgis rúmlega 46% allra á meðan fulltrúi Sjálfstæðisflokksins hafði 29% á bak við sig. Það er sú einfalda staðreynd sem blasir við.

 

Mikið uppnám var í Valhöll út af þessari skoðanakönnun. Hún varð ekki til að auka baráttuandann og stemningin er ekkert til að byggja framhaldið á. Þá hefur stórt og hreinskiptið viðtal við Áslaugu Friðriksdóttur í Mannlífi ekki hjálpað. Hún sagði þar beinlínis að stunduð væri skoðanakúgun í Sjálfstæðisflokknum. Sjónarmiðum væri ekki hleypt að. Styrmir Gunnarsson, af öllum mönnum, hefur tekið undir með Áslaugu og kallað eftir uppstokkun og uppgjöri í flokknum enn á ný. Áslaug fékk ekki sæti á lista flokksins eftir þær miklu hreinsanir sem fram fóru. Þær minna mest á vinnubrögð sem tíðkuð voru í Sovétríkjunum á árum áður en virðast ekki ætla að virka í Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík.

 

Ástandið í flokknum er svo viðkvæmt þessa dagana að fjölmiðill sem ætlaði að nota stöðuna í apríl-gabb í gær, hætti við vegna þess að menn þorðu hreinlega ekki að fara út á hála ísinn. Apríl-gabbið gekk út á að yfirstjórn Sjálfstæðisflokksins hafi ákveðið að skipta um oddvita á lista flokksins í Reykjavík þar sem framboð Eyþórs Arnalds væri ekki að virka. Tilkynna átti um nýjan leiðtoga í Valhöll kl. 15 þann 1. apríl. Skorað var á flokksmenn að fjölmenna og hylla nýjan leiðtoga listans, Davíð Oddsson. Til að undirstrika að um 1. apríl grín væri að ræða, átti að geta þess í tilkynningunni að Lúðrasveit verkalýðsins léki ættjarðarlög fyrir utan Valhöll og að Björn Bjarnason færi með gamanmál.

 

Af þessu varð ekki. Alvaran blasir við.

 

Rtá.