Hættuleg óvissa gæti skapast innan ASÍ eftir að Gylfi Arnbjörnsson tilkynnti að hann hætti sem forseti nú í haust. Þeir sem hafa ráðist að Gylfa með ásökunum og rógi hafa enga áætlun. Gylfi slær hópinn út af laginu með því að standa upp og skilja eftir sig risastórt skarð.
Ragnar Þór Ingólfsson og Sólveig Anna Jónsdóttir höfðu vonast til að Gylfi gæfi ekki upp afstöðu og þau ætluðu að bæta stöðu sína með því að hamast á honum í allt sumar. En Gylfi sá við þeim og hefur nú slegið vopnin úr höndum þeirra því þau hafa engan til að taka við. Þau geta ekki boðið sig fram sjálf. Bæði vegna þess að ekki er unnt að gegna bæði stöðu formanns í stóru launþegafélagi og vera forseti ASÍ um leið. Auk þess hljóta þau að vita að um þau gæti aldrei tekist samstaða. Þau eru bæði ný og reynslulaus en Gylfi er hokinn af reynslu og því kunni hann að leika rétta leikinn í stöðunni.
Vegna þess að staðan er óvænt og óviss, þá munu ýmsar hugmyndir vakna og margvíslegir lukkuriddarar gætu reynt fyrir sér. Það gæti orðið skrautlegt.
Við fyrstu sýn gætu Vilhjálmur Birgisson á Akranesi og Aðalsteinn Baldursson á Húsavík mátað sig í embætti forseta. En við nánari athugun mun koma á daginn að ekki verður stemning fyrir þeim. Auk þess má efast stórlega um að þeir hafi kjark til að takast þetta stóra embætti á hendur. Það er mun auðveldara að gjamma í fjölmiðlum og á fundum en að leiða fjöldahreyfingu og þurfa að skila árangri. Hvorugur þeirra ræður við það. Nafn Drífu Sædal hefur verið nefnt. Hún er líklegri en þeir til að geta ráðið við þetta stóra verkefni.
Því er spáð hér að nafn næsta forseta ASÍ hafi enn ekki komið fram. Því er einnig spáð að það verði óvænt og upphlauðpsliðinu ekki til skemmtunar.
Í öllu þessu samhengi er vert að gefa því gaum að Ragnar Þór Ingólfsson lýkur tveggja ára kjörtímabili sínu sem formaður VR snemma á næsta ári. Hann var kjörinn formaður með einungis 10% kjósenda á bak við sig vegna lélegrar kjörsóknar. Nú hljóta félagar í VR að finna frambjóðanda á móti honum og tryggja almennilega kjörsókn til að losa VR við þennan óróasegg sem gerir ekki annað en valda fólkinu og fyrirtækjunum skaða. Eru ekki allar búnir að fá nóg af því?
Rtá.