Upphlaupið vegna orkupakka esb er svanasöngur davíðs á mogganum

Það er að koma betur og betur í ljós að allt tal um að þriðji orkupakki ESB sé eitthvert  vandamál á ekki við rök að styðjast. Einungis er hér á ferðinni stormur í tebolla. Eða jafnvel enn minna: fellibylur í fingurbjörg.

 

Davíð Oddsson og hans nánustu komu þessari umræðu af stað. Hún er tilraun til að búa til einhverja vígstöðu í umræðunni gegn ESB. Andstæðingar evru, ESB og útlanda finna eins og aðrir að augu fólks eru að opnast betur og betur fyrir því að íslensk króna er ekki framtíðarlausn fyrir okkur og fyrr en síðar verðum við að taka upp evru og ganga í ESB. Allt tal um þriðja orkupakka ESB er veikburða tilraun til að rugla umræðuna. Þeir sem hafa sig mest í frammi í þessu máli er hin aldna sveit fyrrverandi forystumanna í Sjálfstæðisflokknum svo og Sigmundur Davíð og einstaka framsóknarmaður sem er hræddur við Sigmund. Fyrir nokkrum vikum var haldinn fundur í Valhöll sem slegið var upp í Morgunblaðinu og sagt að hann hafi verið “fjölmennur”. Þar var varað við þriðja orkupakka ESB og látið eins og að vá væri fyrir dyrum. Hvort 20 manna fundur telst “fjölmennur” er auðvitað smekksatriði en ljóst er að enginn fudarmanna var undir sjötugu. Þeir voru allir á áttræðis og níræðis aldri og höfðu áhyggjur af framtíðinni.

 

Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, iðnaðar-og orkuráðherra, hefur talað skýrt um þetta mál og undirstrikað að hér sé ekki um merkilegt mál að ræða og engin hætta á ferðum. Í mörgum þingflokkum er brosað góðlátlega yfir þessu enda er flestum ljóst að hér er á ferðinni upphlaup úr smiðju gamla Mogga-ritstjórans. Trúlega lokatilraun hans til að rugla umræðuna áður en hann lætur af starfi ritstjóra í lok næsta mánaðar.

 

Í umræðu um þetta mál hefur vakið athygli að Björn Bjarnason hefur komið fram með skýr rök fyrir því að ekki sé nein ástæða til að hafa áhyggjur af þessu. Hann hefur farið beint gegn málflutningi Davíðs, Sigmundar Davíðs og Frosta Sigurjónssonar. Sú var tíð að Davíð Oddsson og Björn Bjarnason voru sammála um flest í stjórnmálum. Nú virist vera vík milli vina. Eða fyrrum vina. Einnig vekur athygli hvernig bandalag hefur myndast um þetta mál milli Mogga-arms Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og harðlínumanna úr Framsókn eins og Frosta. Eigum við eftir að sjá þá alla sameinast í Miðflokknum? Hver veit? Það færi vel á því af afturhaldsöflin söfnuðust öll þar saman.

 

Davíð Oddssyni mistókst að nota stöðu sína á Morgunblaðinu til að ná kjöri sem forseti Íslands, honum mistókst að gera vin sinn Eyþór Arnalds að borgarstjóra, honum hefur mistekist að hvítþvo sig af hruninu og honum er að mistakast að búa til marktækt upphlaup gagnvart EES-samningnum með þessu vonlausa tali um þriðja orkupakka ESB. Hann kveður því ritstjórastólinn um áramót án nokkurra sigra.

 

Rtá.