Bolludagurinn í nánd og margir taka forskot á sæluna og eru byrjaðir að baka og raða í sig bollum. Heimatilbúnar bollur eru ávallt vinsælar og margir eiga sína uppáhalds bolluuppskrift og fyllingu. Í þættinum Matur og Heimili í kvöld kemur Elenora Rós Georgsdóttir bakari og metsöluhöfundur í heimsókn í eldhúsið til Sjafnar Þórðar. Elenora hefur náð lengra en flestir á hennar aldri í bakstri og kökugerð hér á landi og hefur vakið athygli fyrir einlægni sína í öllu því sem hún hefur tekið sér fyrir hendur. Elenora ætlar að útbúa nokkrar tegundir af hennar uppáhalds bollum fyrir bolludaginn og gefa góð ráð þegar kemur að því að baka vatnsdeigsbollur.
„Bolludagur er uppáhaldsdagur minn,“ segir Elenora en hún kallar bolludaginn þjóðhátíðardag bakara og veit fátt skemmtilegra en að baka bollur ofan í landsmenn stóru bolludagshelgina sem framundan er. Hún segist að ómögulega geta valið hvað sé sín uppáhalds bolla. „Möguleikarnir á fyllingum eru óþrjótandi og hver og einn getur valið sér þá fyllingu sem bragðlaukarnir girnast.“
Bollurnar hennar Elenoru eru sannkallað augnakonfekt bæði fyrir auga og munn. FRÉTTABLAÐIÐ/Anton Brink.
Elenora ætlar að þó að svipta hulunni af nokkrum sínum uppáhalds fyllingum í þættinum kvöld og útbúa bolluna sem mamma hennar gerði ávallt fyrir hana í bernsku.
Girnilegar bollurnar hennar Elenoru. FRÉTTABLAÐIÐ/Anton Brink.
„Ég á mínar bestu minningar um bolludaginn þegar mamma bakaði og fyllti bollur fyrir okkur fjölskylduna með þessari klassísku fyllingu, þessi er ávallt ein af mínum uppáhalds,“segir Elenora sem hefur unnið hug og hjörtu landsmanna með sinni einstöku útgeislun og fallegri framkomu.
Missið ekki af líflegum og skemmtilegri heimsókn Elenoru í eldhúsið til Sjafnar í kvöld þar sem sælkerabollurnar verða í aðalhlutverki í þættinum Matur og Heimili.
Þátturinn Matur og Heimili með Sjöfn Þórðar er sýndur klukkan 19.00 og fyrsta endursýning er klukkan 21.00 í kvöld. Uppskriftir úr þættinum munum birtast í helgarblaði Fréttablaðsins.