Sprengidagur er þriðjudagur í föstuinngangi fyrir lönguföstu, sjö vikum fyrir páska og getur borið upp á 3. febrúar til 9. mars. Í ár ber hann upp á 5. mars enda eru páskarnir seint á ferðinni í ár. Elsta heimild sem vitað er um hið íslenska heiti dagsins tengist matarveislu fyrir föstuna. Þessi heimild er í íslensk-latnesku orðasafni Jóns Ólafssonar Grunnvíkings frá því íkringum árið 1735. Þar segir hann Sprengikvöld þýða orðrétt kvöld sprengingar, það er kvöld miklifenglegrar átveislu með allskonar meðlæti en nefnir einnig að þetta sé sveitamál.
Íslenski rétturinn saltkjöt og baunir er á borðum á fjölmörgum íslenskum heimilum á Sprengidaginn en er þó ekki eingöngu bundinn við Sprengidag. Í tilefni þess að framundan er Sprengidagur og hefð er fyrir því að elda matarmikla og ljúffenga baunasúpu fengum við Jón Örn Stefánsson matreiðslumann og einn eiganda Kjötkompanísins til að gefa okkur upp uppskriftina að hans uppáhalds baunasúpu. Sprengidagur er stór dagur hjá Jóni Erni og fjölskyldu, bæði í vinnunni og heima og er hann ávallt haldinn hátíðlegur með mikilli matarveislu þar sem saltkjötið og baunirnar eru aðalhlutverki.
Baunasúpan hans Jóns Arnar
1,3 kg saltkjöt sérvalið
600 g gular baunir
300 g rófur
400 g gulrætur
160 g beikonkurl
400 g kartöflur
70 g blaðlaukur
3,3 l vatn (fyrir suðu á baunum)
0,3 l soð af saltkjöti
Leggið baunirnar í bleyti deginum áður. Setjið kjötið yfir til suðu í sér potti og sjóðið í rúmlega 2 tíma, á meðan kjötið er að sjóða þá skerið þið grænmetið og sjóðið baunirnar með beikoni og lauk. Baunirnar þurfa um það bil 90 mínútur í suðu. Að því loknu blandið þið restinni af grænmetinu saman við baunirnar og sjóðið í um það bil 40 mínútur. Blandið svo soði frá kjötinu saman við. Þarna getið þið algerlega stjórnað því hvað þið viljið hafa súpuna þykka og hve mikið saltmagn í súpunni. Veljið því þykktina og magn saltsins eftir ykkar smekk.
Til fróðleiks og gamans má í lokin geta þess að lagstúfurinn „Saltkjöt og baunir, túkall“ er oft sunginn þegar Sprengidagurinn fer að nálgast en er einnig oft sönglaður til merkis um að einhverju sé lokið, til dæmis skemmtiatriði. Upphafsmaður þessa lagstúfs mun hafa verið skemmtikrafturinn Baldur Georgs en lagstúfinn er að finna á plötu með Baldri og Konna frá árinu 1954. Gamlar íslenskar hefðir og siðir eins og þessir eru hluti af menningararf okkar og gaman er að halda þeim við með komandi kynslóðum. Njótið Sprengidagsins.