Ógæfu Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík virðist ætla að verða allt að liði. Ekkert hefur gengið að fá öflugan frambjóðanda til að leiða lista flokksins í borgarstjórnarkosningunum næsta vor. Velt hefur verið upp nöfnum fjölmargra en enginn frambærilegur hefur enn gefið kost á sér til að leiða lista flokksins.
Ákveðið hefur verið að efna til leiðtogaprófkjörs í janúar. Vitað er að Kjartan Magnússon og Áslaug Friðrikisdóttir hyggjast gefa kost á sér. Einnig hefur Hildur Sverrisdóttir verið nefnd og loks Eyþór Arnalds. Öllum er ljóst að ekkert þeirra mun draga að fylgi við lista flokksins sem gæti fallið niður fyrir 20% ef forystusætið kæmi í hlut einhvers þeirra. Hermt er að Kjartan Magnússon í hlutverki leiðtoga Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sé nánast eins og “blautur draumur” Dags borgarstjóra og félaga í meirihlutanum.
Nú hefur forystu flokksins dottið í hug að tefla fram Unni Brá Konráðsdóttur sem féll út af Alþingi í síðustu kosningum. Þetta þykir nánast fyndið. Flokkurinn gerði tilraun fyrir fjórum árum með að flytja sveitarstjórnarmann utan af landi í bæinn og láta hann leiða listann. Sú tilraun misheppnaðist fullkomlega þó svo Halldór Halldórsson hafi reynst vel sem bæjarstjóri á Ísafirði. Hann náði aldrei neinum tökum á starfi sínu sem borgarfulltrúi í Reykjavík og megnaði ekki að veita neina forystu í stjórnarandstöðunni.
Það er greinilega allt annað að leiða fjögurþúsund manna sveitarfélag heldur en Reykjavík sem telur um 140,000 íbúa. Þetta er svona svipað og munurinn á að reka hverfissjoppu eða Haga þó svo hvoru tveggja snúist um verslunarrekstur.
Nú dettur Sjálfstæðisflokknum helst í hug að endurtaka þann leik að flytja gamlan sveitarstjórnarmann í bæinn til að leiða lista flokksins. Unnur Brá var sveitarstjóri á Hvolsvelli þar sem íbúafjöldinn er um 1,000. Það er talið henni til tekna. Íbúafjöldinn í Reykjavík er um 140 sinnum meiri en á Hvolsvelli. Ekki þarf að búast við því að henni vegni betur í borginni en Halldóri Halldórssyni. Ótrúlegt ef sjálfstæðismönnum dettur í hug að endurtaka slíka tilraun.
Unnur Brá náði fimmta sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi fyrir Alþingiskosningarnar 2016. Hún var færð upp í fjórða sæti þegar Ragnheiður Elín Árnadóttir dró sig í hlé eftir að hafa verið felld niður í fjórða sæti listans. Unnur komst inn á þing og gegndi starfi forseta í nokkra mánuði en í því embætti reyndi nær ekkert á hana. Kjörtímabilið var varla hafið þegar ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar féll eins og kunnugt er.
Í kosningunum fyrir skemmstu sat Unnur Brá áfram í fjórða sæti listans en náði ekki kjöri til Alþingis.
Þó ljótt sé að nota orðið “fallisti” þá er það því miður eina rétta orðið um pólitíska stöðu Unnar nú um stundir.
Reykvíkingar eru stoltari en svo að þeir vilji láta senda sér stjórnmálamenn utan af landi til að sitja í borgarstjórn eins og Hallór Halldórsson frá Ísafirði er skýrt dæmi um. Unnur Brá Konráðsdóttir er góð og gegn sveitastúlka, “made in sveit”, sem kjósendur í Reykjavík munu ekki taka fagnandi.
Rtá.