Ungbörn eiga að sofa á bakinu

Hjónin Lilja Ástvaldsdóttir og Högni Valsson segja frá sárri reynslu sinni í þættinum Fólk með Sirrý í kvöld en sonur þeirra Jón Ívar dó í vöggu, þriggja mánaða gamall. Hann hefði orðið 40 ára í dag.


Í þá daga voru aðrar kenningar uppi um hvernig annast ætti ungbörn. Foreldrum var í þá daga eindregið ráðlagt að láta börnin liggja á maganum. ,,Mér var kennt það á fæðingardeildinni að láta barnið sofa á maganum" segir Lilja í þættinum.


Nú er þekkingin meiri og aðrar aðferðir kenndar. Hrólfur Brynjarsson læknir fjallar um ummönnun ungabarna samkvæmt nýjustu rannsóknum. Hrólfur er sérfræðingur í barnalækningum og nýburalækningum. Hann vinnur á vökudeild Barnaspítala Hringsins og að auki við vökudeild Karolinska sjúkrahússins í Stokkhólmi.   Þetta er það sem foreldrum er ráðlagt í dag:


Ungbörn eiga alltaf að sofa á bakinu.


Þau eiga ekki að vera of dúðuð.


Mælt er með því að þau sofni með snuð.


Móðir ætti ekki að reykja hvorki á meðgöngu né eftir fæðingu.


Best er að hafa barnið á brjósti, sé þess kostur.


Mælt er með að þau sofi í sér rúmi í herbergi foreldranna.


Aðrir gestir í þættinum eru svo þeir Vigfús Albertsson sjúkrahúsprestur á Landspítalanum sem er með meistaragráðu í áfalla- og sorgarúrvinnslu, og Högni Valur Högnason,  sonur hjónanna Lilju og Högna.


Lilja og Högni lýsa vel reynslu sinni af örvæntingu, einsemd og vonleysi. Nú 40 árum síðar hafa þau unnið mikið í sínu hjónabandi og eiga stóra fjölskyldu.


Vigfús segir að saga hjónanna Lilju og Högna sé saga vonar. ,,Þau eru gangandi von" segir Vigfús. 


Þátturinn er á dagskrá kl. 20 og endursýndur á Hringbraut kl. 22.