Í næsta þætti af Undir yfirborðinu sem sýndur verður í kvöld á Hringbraut skoðum við sjúka ást, haltu-mér slepptu mér sambönd, ástarþráhyggju og tilfinningalega þjáningu sem getur verið gríðarlega skaðleg, veldur því að fólk vanrækir börnin sín, fremur morð og gengur í sjóinn!
Þetta er kallað „Love Addiction” og „Love Avoidant” – eða ástarfíkn og ástarforðun. Tölur frá Bandaríkjunum segja að þetta vandamál eigi við um 40% kvenna og karla og í þættinum er leitt að því líkum að vandinn sé mun stærri á Íslandi
Guðmundur Ingi er vel kunnur fyrir dólgslega persónusköpun á leiksviði, en í eigin lífi hefur hann tileinkað sér sjálfsvinsemd, auðmýkt og tilfinningaleg tengsl. Hann rankaði við sér á sjúkrahúsi í Kaupmannahöfn með allskonar líkamlega einkenni fyrir nokkrum árum, en það eina sem reyndist að honum var ástarfíkn. Hann segist hafa alist upp við miklar ranghugmyndir um konur, sem voru annaðhvort gyðjur eða hórur. Í þættinum er einnig rætt við listakonurnar Elísabetu Jökulsdóttur og Brynhildi Karlsdóttur sem eru óvenju opinskáar um ástarmál sín, en Brynhildur samdi m.a. lagið “Ekki sleppa” um reynslu sína af sjúkri ást.
Ásdís Olsen sér um þáttinn en áhugi hennar á þessu viðfangsefni vaknaði þegar hún sat á kaffihúsi með nokkrum vinkonum sínum fyrir skemmstu. Ásdís segir að þær vinkonurnar hafi orði fyrir áfalli þegar þær fóru að bera saman bækur og sáu að þær voru allar í sömu súpunni. Umræðan hófst á því að ein sagði frá því hvað henni liði illa vegna þess að hún fengi ekki svar við við SMS-skilaboðum sem hún sendi manni sem hún hafði verið að hitta. Í ljós kom að þær könnuðust allar við slíkan sársauka – höfnunartilfinninguna!
Þær höfðu allar keyrt út í Gróttu til að arga og gráta útaf ástarmálum, höfðu beygt og sveigt mörkin sín, orðið sér til skammar með því að senda of mörg SMS, höfðu týnt sér í sælu eða sorg, lent í vandræðum í vinnunni, og það sem verst, höfðu vanrækt börnin sín!
Nokkrar spurning sem segja til um hvort þú sért ástarfíkill eða -forðari?
1. Átt þú það til að verða yfir þig hrifinn af manneskju sem þú þekkir lítið sem ekkert?
2. Ertu mikið með hugann við aðra manneskju, hvað hún er að gera, hvað hún er að hugsa eða meina?
3. Ertu í ástarmálin þín að valda þér tilfinningalegum sársauka eða kvíða?
4. Ertu svo upptekin af ástarmálunum að þú vanrækir börnin þín?
5. Ertu í sambandi sem þú getur ekki slitið þig úr þótt þig langi til þess?
6. Trúirðu því að vandræði þín í „ástarlífi“ stafi af því að þú sért alltaf með „rangri“ manneskju?
7. Er hugsanlegt að þú gætir notið þín betur í lífinu ef þú værir ekki svona upptekin af annarri manneskju?