Unaðslega ljúffeng ætiþistlaídýfa og laxafrauð á áramótaborði

Arna Guðlaug Einarsdóttir kökuskreytingarmeistari sem er heldur úti fésbókarsíðunni Kökukræsingar Örnu er annálaður fagurkeri og er ein af þeim sem hefur mikla ánægju af því að halda boð og veislur. Ástríða hennar leynir sér ekki þegar hún tekur á móti gestum og veit hún fátt skemmtilegra en að bjóða til veislu með stuttum fyrirvara og gleðja sína nánustu. Sjöfn Þórðar heimsótti Örnu á heimilið hennar í Garðabænum í desember sem hún var búin að útbúa glæsilegt hátíðarborð fyrir jóla- og áramótakokteil boð.

M&H - Arna Guðlaug Einarsdóttir jól 17 (1).jpg

Arna Guðlaug Einarsdóttir fagurkeri með meiru við hátíðarborðið. Myndir Sigtryggur Ari Jóhannsson/Fréttablaðið.

Fallegt borð skapar stemninguna

Arna leggur mikla áherslu á alla umgjörð og spáir í hvert smáatriði. „Að leggja fallega á borð skapar svo stemninguna. Falleg lifandi blóm, fallegar servíettur með brotum og falleg framsetning á veitingunum setur tóninn,“ segir Arna og raðar gjarnan saman gylltu og silfruðum litatónum sem eiga vel við hátíðleg tilefni eins og jól og áramót.

M&H Hátíðarborðið - Arna Guðlaug Einarsdóttir jól 06 (1).jpg

Hátíðlegt yfirbragð og falleg servietturbrot og lifandi blóm setja punktinn yfir i-ð.

M&H FAllegt serviettubrot - Arna Guðlaug Einarsdóttir jól 03 (1).jpg

M&H fallega lagt á borð Arna Guðlaug Einarsdóttir jól 02 (1).jpg

Elskar að halda veislur og gleðja vini og vandamenn

„Ég elska að halda veislur og dekka upp borð. Maturinn á ekki eingöngu að gleðja bragðlaukana heldur líka augað. Og öll umgjörðin í kringum matinn eykur á jákvæðu upplifunina.“ Arna er með nokkur töfraráð fyrir þá sem vilja galdra fram kokteilboð án mikillar fyrirhafnar og kostnaðar. „Það er hægt að gera marga góða rétti frá grunni og án mikillar fyrirhafnar, líkt og laxafrauðið og ætiþistlaídýfuna.“ Síðan leggur hún áherslu á að margt er hægt að kaupa tilbúið og spara sér bæði fyrirhöfn og kostnað. „Það er svo gefandi og gaman að halda veislu fyrir vini og vandamenn með stuttum fyrirvara og koma þeim á óvart,“ segir Arna þó svo að þær séu mun færri og fámennari í ár en hefð er fyrir. Enda hver og einn kominn með sína jólakúlu eins og frægt er orðið. Við fengum Örnu til að deila með áhorfendum & lesendum tveimur uppskriftum af hátíðarborðinu sem gleðja bæði auga og munn. Einnig er hægt er að sjá þáttinn hér: Matur & Heimili

M&H Laxafrauð - Arna Guðlaug Einarsdóttir jól 14.jpg

Laxafrauð

450 g reyktur lax

185 g sýrður rjómi

1⁄2 safi úr hálfri sítrónu og góð skvetta af hvítvíni

1 peli léttþeyttur rjómi

Skerið laxinn í bita og setjið í matvinnsluvél og maukið vel.

Bætið við sýrðum rjóma, sítrónusafa og hvítvíni. Blandið vel saman.

Hellið laxamaukinu yfir í góða skál og blandið þeytta rjómanum þá saman við með sleikju. Hellið blöndunni í form eða lítil glös og kælið yfir nótt að eigin vali. Berið fram með rauðum íslenskum kavíar.

M&H Ætiþistlaídýfa að hætti Örnu Arna Guðlaug Einarsdóttir jól 13.jpg

Ætiþistlaídýfa

400 g ætiþistlar

tvær lúkur ferskt spínat (skorið smátt)

1 bolli rjómaostur

2/3 bolli sýrður rjómi

2 bollar rifinn parmesan ostur

1/3 bolli majónes

3 hvítlauksrif, smátt saxaður eða pressaður

salt og pipar eftir smekk

Blandið saman rjómaostinum, sýrða rjómanum, parmesan ostinum og majónesinu í skál, hvítlaukurinn er svo smátt saxaður eða pressaður og blandað við. Saltið og piprið eftir smekk. Blandið ætiþistlunum og spínatinu saman við blönduna og setið í eldfast mót. Setjið í ofn við 160°C á blæstri og hitið í u.b.þ. 20 mínútur. Berið fram með snittubrauði að eigin vali.

Gleðilega hátíð.

Myndir Sigtryggur Ari Jóhannsson/Fréttablaðið.