Una Sighvatsdóttir, sem í haust var ráðin sérfræðingur hjá embætti forseta Íslands, þykir með skemmtilegustu Íslendingunum á Twitter.
Una sagði frá því í færslu í gærkvöldi að hún hefði skellt sér í Vesturbæjarlaugina um helgina. Gefum henni orðið:
„Í kalda potti Vesturbæjarlaugar gerði glaðlegur útlendingur sig líklegan til að daðra við mig, en zen-ið mitt var ekki í stuði svo ég flúði í heita pottinn og fékk þar einræðu frá þjóðþekktum manni á níræðisaldri sem sagðist óforspurður hafa um nokkurt skeið haft blóðugar hægðir.“
Björn Teitsson, upplýsingafulltrúi Krabbameinsfélagsins, svaraði að bragði og sagði að maðurinn ætti að fara í ristilskoðun strax.
„Heyrðu hann fór einmitt loksins í ristilskoðun og kom þar í ljós að allt var lokað, en hann var búinn að kvarta lengi við lækni um blóð í hægðum, án þess að hlustað væri á hann. Ég fékk alla sjúkrasöguna. Við sammæltumst um að boða ætti landsmenn alla í ristilskoðun um fimmtugt,“ sagði Una og bætti Björn við að það væri einmitt eitt af baráttumálum Krabbameinsfélagsins.
Guðmundur Jörundsson fatahönnuður segir að frásögn Unu sé einmitt ástæðan fyrir því að hann elskar Vesturbæjarlaugina. „Það er fegurð í þessu,“ svaraði Una.