Umpólun þingmanns framsóknar

 

12. febrúar árið 2014 var Karl Garðarsson þingmaður Framsóknarflokksins í viðtali á Bylgjunni. Það var fyrir tveimur árum. Þá lýsti Karl raunum fréttastjóra en hann starfaði sem slíkur fyrir Stöð 2 og vann áratugum saman við fjölmiðla.


Lára Hanna Einarsdóttir þjóðmálarýnir heldur til haga ýmsum viðtölum og fróðleik. Í hljóðbroti sem hún hefur geymt segir Karl Garðarsson í viðtalinu á Bylgjunni fyrir tveimur árum að fjölmiðlar starfi með nákvæmlega sama hætti og þegar hann sinnti fréttamennsku. Og það hafi ekkert breyst að mikil tortryggni sé af hálfu valdhafa í garð fjölmiðla, það hafi verið kvartað daglega af hálfu þingmanna og ráðherra þegar hann var fréttastjóri vegna efnistaka og ekki hafi það skánað. Í þessu viðtali setti Karl Garðarsson sig á háan hest sem verjandi fjölmiðla í þingmannahópnum. Hann ítrekaði að eftir fjölmiðlareynslu sína stundaði hann ekki ósanngjarna gagnrýni á fjölmiðla. Hann hafi reynt að skýra hlutverk fjölmiðla út fyrir öðrum þingmönnum eftir að hann varð sjálfur þingmaður. Hann tók sem dæmi þingmenn sem væru mjög óvægnir í gagnrýni, sætu fyrir framan skjáinn með skeiðklukkuna og mældu í kvöldfréttatímanum hve margar fréttir væru um þá sjálfa og þeirra flokka og mætu mál út frá magni. Til að ramma það inn að Karl væri ekki af sama sauðahúsi og frekir þingmenn benti Karl á að hann hefði setið hjá í atkvæðagreiðslu um Rúv, hann taldi þá að þingmenn ættu ekki að vera mikið með puttana í stjórn Rúv.


Í gær birti sami Karl og ræddi áður af svo miklum skilningi um mikilvægi fjölmiðla pistil á Eyjunni. Þar kveður við annan tón. Í millitíðinni hafði það gerst að upp kom fréttamál risavaxið, einmitt vegna athugunar góðra blaðamanna. Sumir fjölmiðlar hafa síðan eftir getu stundað sjálfstæðar athuganir á því hvað felst í heimsfréttinni að forsætisráðherrahjónin eigi stóreignir á Tortóla, að vafi leiki á hagsmunaárekstri forsætisráðherra, að skoða megi alla hans orðræðu og athafnir í nýju ljósi nú, að margar spurningar séu á lofti en forsætisráðherra neiti á sama tíma að svara þeim.

Minna má á að allir minnihlutaflokkarnir á þingi eru að skoða að láta setja fram vantrauststillögu á Sigmund Davíð vegna málsins á sama tíma og sjálfstæðisþingmenn ýmist þegja þunnu hljóði eða skipa sér í hóp gagnrýnenda. Þykir mörgum engin furða. Forsætisráðherra gæti hæglega fallið, hann gæti þurft að segja af sér vegna málsins.

En hvernig virðir þingmaðurinn og stuðningsmaður foringja síns, Karl Garðarsson, sem áður ræddi svo mildilega vitlausa þingmenn og göfugt hlutverk fréttamanna frjálsa fjölmiðlun nú? Hvernig kemur það honum fyrir sjónir að fjölmiðlamenn verði að vinna vinnuna sína? Það er komið annað hljóð í strokkinn. Í gær skrifar Karl og dregur ekki af sér: \"Ríkisútvarpið hefur staðið fyrir herferð gegn forsætisráðherra undanfarna viku og þar hafa allar reglur um hlutlægni látið undan.\"

Hann telur upp þá viðmælendur Ríkisútvarpsins sem hann telur ómerka fyrir það eitt að hafa starfað með fólki sem skipaði fyrri ríkisstjórn. Ekki verður annað séð en að svoleiðis fólk sé óvinur Framsóknarflokksins og er áhugaverð skoðun. Stórhættuleg vitaskuld vegna valda Karls Garðarsonar og klansins í kringum hann.

En hann skrifar:

\"Allt er þetta bullandi hlutdræga fólk er bara kynnt sem hlutlausir álitsgjafar í fréttaflutningi Ríkisútvarpsins, í spjalli um fréttir vikunnar og vangaveltum í morgunútvarpi. Ofan á þetta bætist að á meðan Þórður Snær Júlíusson á Kjarnanum gengur nær af göflunum í því heilaga stríði gegn Sigmundi, leiðréttingunni og Framsóknarflokknum, sem hann hefur háð frá því hann skrifaði um Óvin númer 1 fyrir kosningar 2013, sér fyrrverandi félagi hans og meðeigandi að Kjarnanum Ægir Þór Eysteinsson um helftina af fréttaflutningi Ríkisútvarpsins af málinu.

Ríkisútvarpið hefur loksins fellt grímuna. Hún er ófögur ásjónan sem við blasir. Óvinur nr. 1 er fundinn í Framsóknarflokknum.\"

Þetta eru beinar tilvitanir í pistil þingmannsins.

Mildi Karls og skilningur hans á mikilvægi þess að fjölmiðlar starfi sjálfstætt er augljóslega  úr sögunni.

Samt steðja fáar ógnir meiri að lýðræðinu en yfirtökur valda- og peningamanna á fjölmiðlum og víst er að hluti þess fjár sem kaupir upp frelsi og skoðanir er illa fengið fé. Á sama tíma ætti Karl Garðarsson að vita að aðgreining frjálsra og sjálfstæðra fjölmiðla frá stjórnvaldi er lýðræðinu lífsnauðsynleg. Langa kafla má lesa í Rannsóknarskýrslu Alþingis um að eitt af því sem klikkkaði fyrir hrun hafi verið að veggir milli fjölmiðla og valdhafa hafi hrunið með óskaplegum afleiðingum fyrir samfélagið allt.

Nú ætlar fyrrum fréttamaðurinn og núverandi þingmaður Framsóknarflokksins að standa við þau orð sín að Ríkisútvarpið hafi fundið sér óvin númer eitt og að hann sé að finna í Framsóknarflokknum. Auk þess að draga nafngreinda blaðamenn inn í forarfen sitt. Að því er virðist til að vega að lífsbjörgum þeirra. Það er mikill valdamunur á þingmanni og blaðamanni á Íslandi þannig að svona ummæli má ekki lesa með neinni léttúð.

Karl Garðarsson verður dæmdur af orðum sínum, athöfnum og væntanlega þeim sinnaskiptum sem hann hefur tekið.  Það eitt að Karl Garðarsson sjái ekki samningsrofið að forsætisráðherra neiti að svara spurningum sem almenningur hefur heimtingu á að sé svarað segir allt sem segja þarf. Karl útmálar þá sem bófa sem leitast við að finna sannleikann í málinu. 

Almenningur mun mynda sér skoðun út frá þeim gögnum sem fyrir munu liggja. Sennilega er sú gagnaöflun rétt að hefjast. Ekki mun viðbragð Karls Garðarssonar fæla nokkurn sjálfstæðan fréttamann til þagnar, brýnir blaðamenn heldur til dáða en hitt.

Hér má lesa grein Karls í gær í heild sinni. Hún ber yfirskriftina: Óvinur númer 1.

Björn Þorláksson.

Viðbót uppfærð kl. 13.01: Nútíminn hefur tekið saman að það sem vanti í upptalningu Karls Garðarssonar sé að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra var í viðtali í Morgunútvarpinu á fimmtudag, Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, var í Vikulokunum á laugardag og vtnað var til hans og Vilhjálms Bjarnasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, í hádegisfréttunum. Þá var einnig spilað svar Sigmundar Davíðs við beiðni um viðtal. Karl var sjálfur í hádegisfréttum RÚV á sunnudag.

\"Herferðin var því ekki svakalegri en svo að fjórir þingmenn Framsóknarflokksins fengu tækifæri til að tjá sig um málið á nokkrum dögum. Einn þeirra hefur að vísu hafnað öllum beiðnum fjölmiðla um slíkt. Hann heitir Sigmundur Davíð og er forsætisráðherra,\" segir í frétt Nútímans.