Inngrip sdg skapi stjórnarkreppu

Öryggi sjúklinga er ekki tryggt eins og á stendur innan veggja Landspítalans. Hugmyndir forsætisráðherra um að finna stað undir Landspítala á Vífilsstöðum munu engu hraða heldur þvert á móti seinka úrbótum. Þetta sagði Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans í Vikulokunum á Rás 1 í morgun.

Páll sagðist gáttaður á stefnubreytingu forsætisráðherra eftir alla þá vinnu sem unnin hefði verið. Bent var á ábyrgð Sigmundar Davíðs að hafa skrifað undir fjárlög og markað stefnu sem miðaðist við eitt en nú varpaði hann fram nýrri sprengju.

Nýjustu ótíðindi af vanda Landspítalans eru að bílageymslu hafi verið breytt til að hægt sé að koma þar fyrir sex sjúkrarúmum fyrir bráðveika sjúklinga. Páll sagði ekki hægt að segja að öryggi sjúklinga væri tryggt sem skyldi eins og ástandið væri nú.

Forstjóri Landspítalans segir að ekkert hafi verið leitað til stjórnenda spítalans með þessa hugmynd og því hafi orð ráðherrans komið honum verulega á óvart.

Ólafur Stephensen sem einnig var gestur Vikulokanna sagði að í siðmenntuðu landi mætti staðhæfa að ummæli Sigmundar Davíðs og grein með með myndum og öllu myndi þýða stjórnarkreppu, enginn samstarfsflokkur myndi láta bjóða sér svona framkomu. Fram kom hjá forstjóra Landspítalans í Vikulokunum að Sigmundur Davíð hefði ekkert samstarf haft við heilbrigðisráðherra áður en hann fór fram með látum í gær með nýjar hugmyndir á grunni hugmynda bæjarstjórans í Garðabæ.

Páll sagði að húsnæði spítalans væri \"að grotna niður eins og aðrar ríkiseignir\". Það yrði að gerast í dag að bráðastarfsemi færi öll undir einn hatt, um öryggi sjúklinga væri að tefla og sátt hefði skapast um að Hringbraut væri besti kosturinn fyrir nýtt húsnæði.

Margir hafa farið fram á afsögn forsætisráðherra vegna hugdettu hans sem valdi uppnámi. Kristinn Hrafnsson blaðamaður skrifar á eigin fésbókarsíðu: \"Nú er popúlistinn í forsætisráðherranum að missa sig. Hann leiðir verstu ríkisstjórn í sögu lýðveldisins og þá verkminnstu. Í örvæntingarfullri tilraun til þess að öðlast einhverjar vinsældir stekkur hann á mál sem hann veit að eru umdeild; húsbyggingar í miðborginni, framkvæmdabrjálæði í tengslum við túrsimann og loks staðsetningu Landspítala. Forsætisráðherra sem setur þá litlu orku sem hann hefur í skipulagsmál borgarinnar er í raun að staðfesta fullkomna uppgjöf á landstjórninni. Það eina rökrétta í stöðunni er að hunskast frá völdum.\"

Borgarfulltrúi minnihlutans, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Framsóknarflokki, sem þátt tók í umræðunni í Vikulokunum bar blak af forsætisráðherra og taldi enga ógn stafa af ummælum hans.