Sjöfn Þórðardóttir heimsækir þrjár öflugar og metnaðarfullar konur, hverja á sínu sviði, í þættinum Fasteignir og heimili í kvöld. Að þessu sinni heimsækir Sjöfn, Önnu Björk Eðvarðsdóttur, formann Hringsins og matarbloggara með meiru, Aðalheiði Karlsdóttur framkvæmdastjóra og löggiltan fasteignasala hjá Spánareignum og Evu Dögg Rúnarsdóttur markaðsstjóra og lífskúnstner.
Anna Björk galdrar fram syndsamlega ljúffengar Churros
Anna Björk Eðvarðsdóttir formaður Hringsins og matarbloggari með meiri býður Sjöfn heim í Mosfellsbæinn í tilefni sumarsins og galdrar fram syndsamlega ljúffengar Churros sem er einn af uppáhalds réttum hennar og eiginmannsins á góðum sumardögum. Sjöfn og Anna Björk ræða einnig um matartengdar sumarhefðir og hvernig sumarið fær okkur til að laða fram hina ýmsu kræsingar sem gleðja bragðlauka og maga.
Finndu draumaeignina þína á Spáni
Aðalheiður Karlsdóttir framkvæmdastjóri og löggiltur fasteignasali hjá Spánareignum þekkir mjög vel til á Spáni og hefur selt fasteignir þar í áratugi. Íslendingar eru sólgnir í sól og sumar og sækja í vaxandi mæli að eignast draumaeignina á Spáni. Sjöfn heimsækir Aðalheiði í vinnuna og ræðir ferlið frá upphafi til enda þegar draumaeignin er fundin. Hjá Spánareignum er áhersla lögð á einstaklingsmiðaða þjónustu og leitast er við að uppfylla þarfir hvers og eins.
Umhverfisvænn heimilisstíll heillar og gerir lífið betra
Eva Dögg Rúnarsdóttir, lífskúnstner með meiru á fallegt og hlýlegt heimili sem ber þess sterk merki hver þar býr. Sjöfn heimsækir Evu Dögg og fær innsýn í heimilisstíl Evu Daggar, sem bæði fangar augað og skilningarvitin. Eva Dögg lifir eiturefnalausum lífstíl og prýðir heimili sitt með gefandi plöntum og fallegum hlutum sem allir eiga sér sögu. Hún er mjög meðvituð um mikilvægi þess að við hugsum um umhverfið okkar með hag næstu kynslóðar fyrir brjósti.
Þátturinn Fasteignir og heimili er á dagskrá öll mánudagskvöld kl. 20:30 á Hringbraut - og jafnan ferskur, fjölbreyttur og með persónulegum blæ.