Æ fleiri fyrirtækja á umbúðamarkaði leggja nú áherslu á náttúruvænar umbúðir utan um matvöru og annan dagvöruvarning. Þessa sér stað á vörulistum ræstivörufyrirtækjanna á Íslandi þar sem hægt er að skoða myndir af fjölda umbúða sem allar eru unnar úr náttúruafurðum og brotna því niður í safnkassanum. Þar er að finna drykkjarmál, súpubox, kökubox, hnífapör, samloku-, matar- og pizzukassa og margt fleira. Fyrirtæki í þessari starfsemi í Evrópu og víðar um álfur vaxa nú hraðar en almennt þekkist í viðskiptalífinu í heimi hér, en þess utan sópa þau til sín öllum helstu verðlaunum og viðurkenningum sem hægt er að hafa í þessum geira atvinnulífsins. Þessi þróun er ef til vill ekki undrunarefni, því þeim samfélögum fer fjölgandi sem beinlínis banna notkun plastumbúða, einkum plastpoka. Allt útlit er fyrir að verslunin sjálf muni bráðlega taka af skarið í þessum efnum, en mjög er nú um það rætt innan raða kaupmanna, jafnt hér á landi sem annars staðar, að draga verulega úr notkun plastumbúða, eða jafnvel taka alveg fyrir hana. Stöku verslunarstjórar eru raunar þegar búnir að skella merkimiða framan á búðargluggann þar sem segir að enga plastpoka sé þar að hafa.