Áhrif viðskipta á lífsandann

Viðskiptablaðið birti á vef sínum merkilega frétt um helgina. Fyrirsögnin var sótt í grafalvarlega fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar. En það var undirfrétt í fréttinni sem var stærra skúbb en fjárhagsvandi sveitarfélagsins án þess að meiningin sé að gera lítið úr blankheitum Reykjanesbæjar. Undirsaga fréttarinnar varðar alla landsmenn og hún spyr spurninga um sjálfstæði, lýðræði og fullveldi.

Hér er átt við þann þátt fréttarinnar í Viðskiptablaðinu þar sem þetta er haft eftir Kjartani Má Kjartanssyni, bæjarstjóra Reykjanesbæjar: „Thorsil ætlar ekki að greiða okkur afborgun inn á sín mál fyrr en þeir fá endanlegt go á raforkusamninga sem þeir er með. Tekjurnar munu ekki koma inn á þetta ár hjá okkur eins og við reiknuðum með, kostnaðurinn kemur á þetta ár en ekki tekjurnar,“ segir Kjartan í fréttinni.

Hann vísar þarna til erlenda auðhringsins sem ætlar að byggja kísilver í Helguvík, eitt af þremur sem fyrirhuguð eru á landinu. Spyrja má um þrýstingsáhrifin ef framtíð sveitarfélags stendur og fellur með tiltæku og niðurgreiddu rafmagni? Kann að vera að sama staða hafi komið upp á Húsavík, þar sem skuldsetning Húsavíkurhafnar sem lagði út í miklar framkvæmdir vegna fyrirhugaðrar stóriðju án þess að hún væri í hendi, hefði farið langt með að draga sveitarfélagið niður í hyldjúpan skuldapytt ef ekki hefði tekist að redda erlendu fyrirtæki, PCC, nægilegri fyrirgreiðslu til að draga það norður?

Það mun eflaust verða Reyknesingum hvati til lausnar  að Reykjanes er kjördæmi iðnaðarráðherra. Ragnheiður Elín Árnadóttir mun gera hvað hún getur til að hnippa Í Landsvirkjun og hagsmunaaðila sem eiga sitt undir að rafmagni verði reddað og að verksmiðja Thorsil rísi. Reynt verður að bjarga tekjum sveitarfélagsins með sama hætti og jafnvel (fyrrum) umhverfissinnuðustu þingmenn NA-kjördæmis studdu margvíslegar ívilnanir sem gögnuðust mengandi starfsemi PCC á Húsavík og miklu raski sem framkvæmdunum fylgir.

Þegar pólitíkusar kaupa sér framhaldslíf með því að liðka til fyrir stóriðnaði í héraði vekur það ætíð spurningar um sjálfbærni, sjálfstæði og framtíðarhagsmuni komandi kynslóða. Eins og fram kom í síðasta sjónvarpsfréttaskýringaþætti Kvikunnar á Hringbraut má segja í einfaldri mynd að átökin um mengandi stóriðjur sem fá viðkvæm svæði virkjuð og hagstæða samninga á raforkuverði snúist um rimmu skammtímahagsmuna við langtímahagsmuni. Þar hafa kviknað áleitnar spurningar um andrúmsloft, ofnýtingu auðlinda og náttúruvernd.

Rifja má einnig upp í þessu samhengi að Stundin greindi frá því í apríl að sami bæjarstjóri og segir nú að Reykjanesbær eigi sitt undir Thorsil í dag og rafmagni til fyrirtækisins, kaus fyrir hálfu ári annars konar starfsemi í Helguvík „ef ég hefði átt eitthvert val,“ eins og Stundin hafði þá eftir honum. „Því umhverfisvænni starfsemi sem hægt er að fá hérna því betra,“ sagði hann þá.

Fjölmargir íbúar í Reykjanesbæ óttast mengun frá verksmiðjunni í Helguvík, það hefur komið fram. Það er eins og að bæjarstjórnin líti á það sem neyðarrúræði að umdeildar verksmiðjur rísi en þegar svo er komið má spyrja hvort starfsemin verði frekar á forsendum iðnaðargreifanna en heimamanna. Stöð 2 sagði frá því fyrir skemmstu að fyrirhuguð íbúakosning um verksmiðjuna muni enga þýðingu hafa, verksmiðjan muni rísa burtséð frá vilja bæjarbúa. Þannig fer fyrir samfélögum þegar ægivald korporismans hefur líf íbúa og framtíð heilu byggðanna í hendi sér.

Viðskiptalífið getur haft margvísleg áhrif á mannsandann. Oft verða þau áhrif til góðs - en ekki alltaf. Það verður að koma í veg fyrir að korporismi ráði örlögum sveitarfélaga og taki jafnvel yfir þann sjálfsagða rétt borgaranna að draga lífsandann sæmilega ómengaðan. Þar mega blankheit sveitarfélaga aldrei hafa áhrif.