Ugla stefanía: „lélegt yfirklór og útúrsnúningar“

Í færslu á Facebook-síðu sinni í gærkvöld vandar Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, þingmönnum og kjósendum Miðflokksins ekki kveðjurnar. Tilefni skrifanna var lagafrumvarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um kynrænt sjálfræði, sem var samþykkt á Alþingi í gær.

„Í ljósi þess að lög um kynrænt sjálfræði fór í gegn á Alþingi er vert að nefna að eini flokkurinn sem annað hvort sat hjá eða var fjarverandi með öllu var Miðflokkurinn. Eftir hræðilega fordómafullar ræður frá tveimur Miðflokksmönnum í 2. umræðu um þetta frumvarp kemur þetta því ekkert á óvart,“ segir Ugla.

Hún segir það ljóst að flokkurinn sjái sér ekki sóma sinn í því að styðja það sem hún kallar eina stærstu réttarbót trans fólks og intersex fólks vegna áhyggna sem eigi sér enga stoð í raunveruleikanum og komi frumvarpinu lítið við. „Allar afsakanir sem þau kunna að bera fyrir sig eru því lítið annað en lélegt yfirklór og útúrsnúningar, enda er það ekki afsökun að vera illa upplýst um mál sem er vel hægt að afla sér allra upplýsinga um ef viljinn er fyrir hendi.“

„Það er því skammarlegt að flokkurinn sé sá eini sem styður ekki við réttindi trans fólks og intersex fólks og held ég að fólk sem kýs þennan flokk ætti að hugsa sig tvisvar um áður en gengið er til næstu Alþingiskosninga. Eins og ég hef sagt áður: að kjósa Miðflokkinn er að kjósa gegn réttindum hinsegin fólks,“ segir Ugla að lokum.

Mikilvægar breytingar á réttarstöðu hinsegin fólks

Með samþykkt laganna um kynrænt sjálfræði er staðfestur með lögum réttur einstaklings til að breyta opinberri kynskráningu sinni í samræmi við eigin upplifun, án þess að þurfa að sæta skilyrðum um sjúkdómsgreiningu og læknismeðferð.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra sagði við þetta tilefni:

„Til þess að bæta réttindi fólks í raun og veru þarf pólitískt þor og pólitískan vilja. Réttindi fólks eru nefnilega því miður ekki sjálfsögð þótt árin líði eins og við sjáum þegar við horfum á stöðu mannréttinda á alþjóðavettvangi. Nýsamþykkt lög um kynrænt sjálfræði fela í sér mikilvægar breytingar á réttarstöðu hinsegin fólks og með samþykkt laganna skipar Íslands sér í fremstu röð á alþjóðavísu. Mín von er að með samþykkt þessara laga muni þörf umræða vakna í samfélaginu um það hvað þetta merkir og mikilvægi þess að tryggja mannréttindi allra hópa samfélagsins.”

Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu í gær kom fram að frumvarpið miði að því að virða og styrkja sjálfsákvörðunarrétt hvers einstaklings þar sem eigin skilningur á kynvitund er lagður til grundvallar ákvarðanatöku varðandi opinbera skráningu, enda séu aðrir ekki betur til þess bærir. Einnig er lögunum ætlað að standa vörð um rétt einstaklinga til líkamlegrar friðhelgi og verður nú skipaður starfshópur til að tryggja réttarstöðu barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni.