Í umróti undanfarinna daga hefur það vakið athygli hversu týnd svokölluð forysta Sjálfstæðisflokksins hefur verið. Á sama tíma og þjóðin hefur staðið á öndinni út af atburðum sem tengjast háttsemi fráfarandi forsætisráðherra og formanns og varaformanns Sjálfstæðisflokksins hafa þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins verið nánast týndir. Þeir virðast hafa misst málið, flestir hverjir.
Mesta furðu vekur að Bjarni Benediktsson hafi boðið þjóðinni upp á það að vera í hálfsmánaðar fríi á Flódída á sama tíma og eldar hafa logað í samfélaginu. Hann kom svo heim á síðustu stundu eftir að hafa frestað för og borið því við að hann hafi “misst” af flugi sem er með því lélegasta sem haldið hefur verið fram. Hann var svo skelfingu lostinn út af ástandinu að hann þorði ekki heim. Það var hreint ekki stórmannlegt.
En hvar voru hinir fyrirsvarsmenn flokksins á meðan Bjarni sólaði sig á Flórída? Fjölmiðlar náðu ekki í neinn hinna ráðherranna. Enginn þeirra þorði í viðtal. Þau týndust og voru öll í felum. Ólöf Nordal er þó varaformaður flokksins. Illugi Gunnarsson er að vísu algjörlega rúinn trausti og hefur gert sér ljóst að hann myndi einungis gera illt verra með því að blanda sér í umræðuna um starfsemi samráðherra á Tortóla. Ragnheiður Elín og Kristján Þór Júlíusson voru einnig ósýnileg. Þá er formaður þingflokksins, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, erlendis og var ekki til svara.
Guðlaugur Þór Þórðarson og Brynjar Níelsson komu fram í fjölmiðlum og höfðu ekkert að segja. Allir vita að þeir hafa takmarkað vægi í þingflokki Sjálfstæðisflokksins og því var afar veikt að tefla þeim fram. Öllum er ljóst að þeir sem skipta máli í þessum hópi eru ráðherrar, formaður þingflokks og forseti þingsins. Hinir eru fótgönguliðar og hafa allt aðra og minni vikt.
Þessi veika framganga týndu forystunnar í Sjálfstæðisflokknum undirstrikar þann mikla forystuvanda sem flokkurinn stendur frammi fyrir. Bjarni Benediktsson og Ólöf Nordal eiga í vök að verjast vegna Tortólamála og ekki sér fyrir endann á því hvaða afleiðingar það kann að hafa í för með sér. Hanna Birna og Illugi eru rúin trausti, Ragnheiður Elín hefur brugðist sem ráðherra og hvergi í flokknum glittir í neina öfluga forystumenn til að stíga fram og taka að sér mikilvæg hlutverk.
Margir gamlir og traustir flokksmenn eru í öngum sínum vegna ástandsins. Sumum þeirra kemur það helst til hugar að kalla á gamla leiðtogann og sigurvegarann, Davíð Oddsson, ofan úr Hádegismóum til að leiða hjörðina út úr eyðimörkinni. Svona er örvæntingin mikil á vettvangi Sjálfstæðisflokksins.