Tvöfalda framlög til samtakanna 78

Ráðgjafar- og fræðsluhlutverk Samtakanna ´78 verður eflt í samræmi við áherslur stjórnvalda um að koma Íslandi í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks. Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra og Daníel E. Arnarsson,  framkvæmdasstjóri samtakanna hafa undirritað þjónustusamning þessa efnis samkvæmt tilkynningu frá ráðuneytinu.

Í samningnum er fjallað um þá fræðslu og þjónustu sem Samtökin ´78 munu annast fyrir fjárframlag velferðarráðuneytisins. Í  því felst sértæk ráðgjöf og fræðsla um málefni hinsegin fólks, jafnt fyrir hlutaðeigandi einstaklinga, aðstandendur þeirra og fyrir fagfólk sem nýst getur slík fræðsla í störfum sínum, líkt og nánar er skilgreint í samningnum. Markmiðið er að skapa hinseginvænt samfélag og auka sýnileika hinsegin fólks.

Hlutverk Samtakanna ´78 hefur breyst á liðnum árum og verkefnin beinst í vaxandi mæli að því að sinna einstaklingsmálum, fræðslu og ráðgjöf. Sérstaklega er fjallað um þetta í samningnum þar sem kveðið er á um að hinsegin fólki og aðstandendum þess skuli standa til boða, því að kostnaðarlausu, ráðgjöf vegna persónulegra mála, félags- og sálfræðiráðgjöf og lögfræðiráðgjöf. Þjónustan skal veitt á landsvísu eftir því sem við verður komið og ef einstaklingar hafa þörf fyrir túlk skulu samtökin hafa milligöngu um það samkvæmt samningnum.