Tvö vandræðalegustu augnablik frá stofnun útvarps sögu: þess vegna er saga besta stöð í heimi!

Ég hef verið aðdáandi Útvarps Sögu frá árinu 2009. Þátturinn Línan er laus sem er á dagskrá frá klukkan níu á morgnanna til klukkan tólf alla virka daga er í sérstöku uppáhaldi. Einn umdeildasti útvarpsmaður íslenskrar fjölmiðlasögu, Pétur Gunnlaugsson, stýrir þættinum og ræðir við innhringjendur um málefni líðandi stundar.

Og í Línan er laus heyrist í hásum, rámum röddum rasista, sumir á bótum og óttast að flóttamenn og hælisleitendur muni hafa af þeim vinnuna! Fólk sem krefst mannréttinda en vill á sama tíma ekki að aðrir fái að njóta þeirra. Við höfðum vanist því að útlendingahatur væri ekki að finna í fjölmiðlum en á síðustu árum hefur það brotið sér leið inn í þjóðfélagsumræðuna í gegnum einstaka fjölmiðla. Þá eru aðrir hlustendur sem eru fullir af fordómum í garð samkynheigðra. Síðan verður einhver skelkaður og hrekkur í kút þegar hann kemur auga á femínista álengdar og fyrrverandi bílstjóri er viss um að konur séu verkfæri hins illa.Svo er einn sem hatar þetta og annar sem hatar hitt.

En við skulum ekki dæma alla hlustendur Útvarps Sögu. Þangað hringir líka margt gott fólk. Þó dregið hafi verulega úr því síðustu ár að ég hlusti á stöðina gerist það öðru hvoru að ég kveiki á útvarpinu og stilli á FM 99.1. Fyrir því eru tvær ástæður.

Ég var nýfluttur heim frá Spáni og hafði verið þar í nokkur ár. Ég vissi ekki af Útvarp Sögu. Allt í einu heyri ég rödd Péturs og þetta eru engar ýkjur, samtalið var á þessa leið sirka.

Innhringjandi: Já, góðan daginn, er þetta Saga?

Pétur: Já, góðan daginn.

Innhringjandi: Heyrðu, hérna, er ég í beinni útsendingu eða er þetta endurtekinn þáttur?

Pétur: Ha, uu, jú, þetta er í beinni útsendingu.

Innhringjandi: Þetta er sem sagt ekki endurtekinn þáttur?

Pétur: Ha, nei nei. Þú ert í beinni.

Því miður missti Pétur af tækifærinu að segja: „Þú ert staddur í endurteknum þætti frá því í fyrradag. Þá vorum við að ræða um Hrunið. Hefur þú eitthvað til málanna að leggja?“ Möguleikarnir eru endalausir. En ekki veit ég hvort maðurinn hafi talið að hann væri sá fyrsti til að ná inn í endurtekinn þátt, en hann og Pétur héldu áfram að ræða um daginn og veginn eins og ekkert hefði í skorist. Arnþrúður sagði mér seinna, í eina skiptið sem ég hef komið sjálfur í viðtal, að hlustendur reyni oft að hringja á kvöldin í þáttinn Línan er laus, þá þegar hann er endurfluttur.

Og lengi beið ég eftir að augnablik eins og þetta myndi eiga sér stað. Í mörg ár komst ekkert með tærnar þar sem tímaflakkarinn hafði hælana, en eitt atvik kemst ansi nálægt. Er þetta skrifað eftir minni en var á þessa leið og við komum inn í samtalið eftir að innhringjandi hafði kynnt sig.

Innhringjandi: Heyrðu, ástæða þess að ég hringi er að mig langar að tala um reykingar.

Pétur: Nú já.

Innhringjandi: Þannig er að við erum með skrifstofur á annarri hæð. Fyrir neðan okkur er fólk sem reykir og reykurinn berst til okkar og truflar okkur við vinnu.

Pétur: Það er ekki gott að heyra.

Innhringjandi: Nei, þetta er mjög óþægilegt. Við teljum líka að þau reyki of nálægt loftinntakinu sem er úti þannig að reykurinn berst til okkar og eins og ég sagði áðan, þá teljum við að fólkið reyki líka innandyra.

Pétur: Þetta gengur nú ekki.

Innhringjandi: Nákvæmlega.

Pétur: Hafði þið reynt að ræða við fólkið?

Innhringjandi: Já  já, ítrekað.

Pétur: Ætli þið verðið ekki að reyna að ræða við þetta fólk aftur. Þetta er auðvitað argasti dónaskapur.

Innhringjandi: (hækkar röddina: Já, væruð þið þá til í að gera eins og við erum búin að vera ítrekað að biðja ykkur um.

Pétur: Ha!?

Innhringjandi: Já, við er erum ítrekað búin að biðja ykkur að hætta að reykja á þessum stað til að koma í veg fyrir að reykurinn berist ekki til okkar en þið hlustið ekkert á okkur! Við erum hérna fyrir ofan ykkur ...

Pétur: (Innskot) Ofan okkur!

Innhringjandi: (Heldur áfram) ... og eins og þú veist erum við oft búin að biðja ykkur að hætta þessum reykingum. Þetta er orðið gott ...

Tjaldið fellur og þú bíður eftir næsta augnabliki frá bestu útvarpsstöð í heimi. Það er nefnilega stundum ljós í svartasta myrkri.

Línan er laus!