Óhætt er að segja að mjög skiptar skoðanir séu meðal landsmanna um þá hugmynd að virkja hundruð megawatta sérstaklega í þeim tilgangi að selja rafmagn til Bretlands. Landsvirkjun talar mjög fyrir framtakinu en á hinum ásnum er því haldið fram að um mikinn skaða yrði að ræða.
Forstjóri Landsvirkjunar hefur sagt að sæstrengur milli Íslands og Bretlands kunni að vera mjög hagkvæmur kostur. Í viðtali við Spegilinn á Rúv kom fram hjá Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar, að vinnuhópur Breta og Íslendinga um sæstreng skili niðurstöðum í apríl. Til greina kemur að tengja strenginn við Færeyjar.
Allt byrjaði þetta með heimsókn David Camerons, forsætisráðherra Breta. Ef af verður verður strengurinn sá lengsti í heimi sinnar tegundar, 1000 til 1200 kílómetrar. Áætlun gerir ráð fyrir að hann gæti kostað einn og hálfan til tvo milljarða evra eða allt að 280 milljarða króna.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur sett þann fyrirvara að sæstrengurinn megi ekki hafa áhrif á raforkuverð til heimila og fyrirtækja. Hörður segist sammála ÞVÍ og segir að kanna eigi leiðir til að koma í veg fyrir hækkanir til heimila eins og fram kom í Speglinum fyrir helgi. Kostnaður Landsvirkjunar yrði verulegur og hefur lagningu sæstrengs verið lýst sem áhættufjárfestingu.
Varað við skammsýni
Fyrir nokkrum árum rituðu tveir menn, bræður, áhugamenn um málið grein á visir.is þar sem segir að að íslenskir raforkuframleiðendur hafi lengi vart haldið vatni yfir þeirri hugmynd að leggja sæstreng til Evrópu og selja auðlindina sem hrávöru til neytenda þar. Þeir draumar muni þó leiða til þess að raforkuverð til almennra neytenda hér stórhækki. Annar greinarhöfunda, Jón Helgi Þórarinsson, segir að sér lítist afar illa á hugmyndina.
Vaxandi andstaða virðist meðal íslensks almennings við orkufrekar virkjanir hérlendis þar sem ósnortin víðerni, einn helsti segull erlendra ferðamanna, kunni að vera í hættu fyrir minni hagsmuni að ekki sé talað um upplifun Íslendinga af því að búa í ósnortnu landi. Þá eru umhverfismál mikilvægasta mál samtímans samkvæmt Sameinuðu þjóðunum. Virkjanastefna núverandi stjórnvalda er ekki sögð í neinu samræmi við kröfur um hagsmuni komandi kynslóða, sjálfbærni lands og þjóðar, að ekki sé talað um að tiltölulega lágt raforkuverð íslenskra heimila fram til þessa kunni að stórhækka vegna iðnaðarumsvifa og markaðsvæðingar rafmagns á heimvísu. Fyrir helgi vakti andóf Andra Snæs Magnasonar rithöfundar og Bjarkar Guðmundsdóttur söngkonu mikla athygli en þau héldu blaðamannafund með erlendum blaðamönnum á Airwawes og vöruðu við skammsýni ríkisstjórnarinnar. Þau vilja friða hálendi Íslands.
Jón Gunnarsson varfærinn
Hringbraut leitaði álits Jóns Gunnarssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins en hann hefur verið orðaður við ráðherraembætti innan ríkisstjórnarinnar frá og með áramótum. „Ég tel mikilvægt að allar upplýsingar liggi fyrir um málið og því þurfi ákveðin vinna að fara fram áður en málefnaleg umræða geti átt sér stað. Stórum spurningum er enn ósvarað, svo sem um áhrif á orkuverð innanlands, orkuþörf og áhrif á uppbyggingu fjölbreytts orkuiðnaðar með tilheyrandi áhrifum á verðmætasköpun og fjölgun starfa innanlands,“ segir Jón.
Hann hefur ítrekað lent í rimmu við minnihllutann á alþingi í umræðum um orku, stóriðju, rammaáætlun og náttúru landsins. Að Jón taki ekki dýpra í árinni í stuðningi sínum við rafstreng er talið til marks um að jafnt innan meiri- og minnihlutans á Alþingi sé mikil andstaða enn við fyrirætlanir.
Umhverfismál könnuð til hlítar
Greiningardeild Arion banka fjallaði í sumar um kosti og galla við lagningu rafstrengs til Bretlands. Þar segir: „Að sjálfsögðu felast verðmæti í ósnortinni náttúru. Þau verðmæti má ekki vanmeta, sérstaklega þar sem virði þeirra mun mjög sennilega vaxa á næstu áratugum með áframhaldandi fólksfjölgun og ásókn í auðlindir í heiminum. Vandinn er að mun erfiðara er að meta slíkt verðmæti náttúruauðlinda heldur en verðmæti þess að virkja þær. Þetta þýðir þó að okkar mati ekki að það megi ekki að virkja, einungis að það verði að fara varlega, kanna umhverfismál til hlítar og ná sem mestri sátt um fjárfestingar í orkuiðnaðinum, hversu miklar sem þær kunna að verða. Það ætti í það minnsta að vera algjör grunnforsenda að umhverfisraskandi framkvæmdir skili sem mestum ábata.“
67% gegn hugmyndinni
Greiningardeild Arion banka segir að sátt verði að nást hvernig Íslendingar hyggist nýta orkuauðlindir landsins. Arion bendir á að í nýlegri skoðanakönnun voru 67 prósent þeirra sem tóku afstöðu á móti lagningu raforkusæstrengs til Bretlands.
Heildsöluverð raforku myndi skv. greiningu Arion hækka við lagningu sæstrengs eins og Jón Helgi bendir á. Landsvirkjun gæti fengið um 80 dollara fyrir hverja megawattastund, tvöfalt hærra en heildsöluverðið sem íslenskum heimilum býðst í dag.
„Slík hækkun myndi þó hækka rafmagnsreikning heimila talsvert minna eða um 40%, ef við gerum ráð fyrir óbreyttum drefingarkostnaði.“
Hin rökin eru að aukinn arður fyrirtækja í eigu almennings gæti vegið að hluta eða alveg á móti mögulegum orkuverðshækkunum til almennings,. „Stór hluti hækkunar raforkuverðs, bæði vegna orku um sæstreng og innanlandsmarkaðar, ætti að skila sér beint í betri afkomu orkufyrirtækja sem geta þá skilað meiri arði til eigenda sinna, almennings.“
Það veltir aftur upp spurningum um einkavæðingu landsvirkjunar og er ekki nema eðlilegt að brjóst margra Íslendingar séu full af tortryggni, enda virðast hagsmunir Breta að óberyttu mun meiri en Íslendinga á því að íslenskt rafmagn verði selt út sem neysluvara.
Hreinlega of áhættusamt
Greiningardeild Arion vísar í grein sinni í útreikninga Bloomberg New Energy Finance um að kostnaður við lagningu sæstrengsins gætir orðið 400 milljarðar króna. Skiptir því miklu hver stendur að framkvæmdinni.
„Ljóst er að umfang framkvæmda vegna sæstrengs væri gríðarlegt í hlutfalli við stærð íslenska hagkerfisins. Vegna þessa hafa margir skiljanlega áhyggjur af því að verkefni á borð við sæstreng sé of áhættusamt.“
Þá nefnir greiningardeildin að rafmagni um sæstreng fylgi engin atvinnusköpun.
Það verður spennandi að sjá hvað kemur út úr störfum vinnuhópsins í apríl en af framansögðu er augljóst að hugmyndin um sæstreng er afar umdeild. Virðist gild spurning hvort sala rafmagns til að glæða ljósin í Bretlandi myndi kalla myrkur yfir Ísland í fleiri en einum skilningi.
(Fréttaskýring: Björn Þorláksson. Birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)