Í fyrra fékk Sjöfn Þórðar þáttastjórnandi þáttarins Matur & Heimili, Önnu Björk Eðvarðsdóttir formann Hringsins og sælkera- og matarbloggara, með meiru til að ljóstra upp leyndarmálinu bak við hennar uppáhalds súkkulaðibröns sem viðeigandi er nú yfir súkkulaðihátíðina miklu, sérstaklega á þessum degi. Þetta var vinsælasta páska uppskriftin árið 2020. Nú er annar í páskum og þá eiga margir afgang af páskaeggjum, súkkulaðibrot sem hægt er að nýta vel í þennan dásamlega rétt. Það er vel þess virði að rifja þessa upp og halda áfram að njóta súkkulaðiveislunnar.
Hennar uppáhalds er súkkulaði French Toast og sviptir Anna Björk hulunni af uppskriftinni sem enginn súkkulaði aðdáandi stenst.
„Nú er um að gera að gleðja sálina í gegnum magann, þar sem við eigum að halda okkur heima og hlýða Víði. Það virðist ekki vera neitt lát á veðurofsa hjá okkur þetta árið, appelsínugul viðvörun er eitthvað sem við erum orðin alvön. Svo eru það hörmungarnar sem fylgja Covid-19 um allan heim. En, við ætlum ekki að sökkva okkur í of þungar vangaveltur um það núna, páskarnir eru að koma með öllu súkkulaðinu sem þeim fylgja og við ætlum að njóta þess í tveggja metra fjarlægð frá öðrum,“ segir Anna Björk. Eftir að Sjöfn fékk að smakka þessa var ekki aftur snúið, truflað súkkulaði French toast sem enginn stenst.
Bættu þessari uppskrift við morgunverðarsafnið þitt, þú átt eftir að njóta þessa aftur og aftur og hugsa hlýtt súkkulaðsins sem gleður hjarta og sál.
Súkkulaði French Toast
Fyrir 4
3 egg
185 ml. mjólk (eða kókos-/möndlumjólk)
1 msk. sykur
salt á mili fingra, örlítið
20 g smjör
8 sneiðar hvítt samlokubrauð
100 g mjólkursúkkulaði, mjólkursúkkulaði dropar frá Sírius, eða bara afganga af páskaeggjabrotum
flórsykur til skreytingar
Mjólk, egg, salt og sykur eru slegin vel saman í rúmgóðu fati. Fjórar sneiðar af brauðinu eru lagðar í blönduna og velt einu sinni í henni.
Smjörið er hitað á pönnu og sneiðarnar eru settar á pönnuna, súkkulaðinu er dreift jafnt á milli sneiðanna. Hinar fjórar sneiðarnar eru settar í eggjablönduna og bleyttar vel.
Sneiðarnar eru settar ofan á súkkulaðið og þrýst létt á. Samlokunum er snúið og þær steiktar á hinni hliðinni, þar til þær eru gylltar og súkkulaðið vel bráðnað. Teknar af pönnunni og settar á disk og stráðar með flórsykri.
Njótið vel og verði ykkur að góðu.
Anna Björk Eðvarðsdóttir nýtur sín í eldhúsinu að töfra fram sælkerakræsingar sem bráðna í munni.