Truflað súkku­laði French toast sem enginn stenst á öðrum degi páska

Í fyrra fékk Sjöfn Þórðar þáttastjórnandi þáttarins Matur & Heimili, Önnu Björk Eð­varðs­dóttir for­mann Hringsins og sæl­kera- og matar­bloggara, með meiru til að ljóstra upp leyndar­málinu bak við hennar upp­á­halds súkku­laði­bröns sem við­eig­andi er nú yfir súkku­laði­há­tíðina miklu, sérstaklega á þessum degi. Þetta var vinsælasta páska uppskriftin árið 2020. Nú er annar í páskum og þá eiga margir afgang af páskaeggjum, súkkulaðibrot sem hægt er að nýta vel í þennan dásamlega rétt. Það er vel þess virði að rifja þessa upp og halda áfram að njóta súkkulaðiveislunnar.

Hennar upp­á­halds er súkku­laði French Toast og sviptir Anna Björk hulunni af upp­skriftinni sem enginn súkkulaði aðdáandi stenst.

„Nú er um að gera að gleðja sálina í gegnum magann, þar sem við eigum að halda okkur heima og hlýða Víði. Það virðist ekki vera neitt lát á veður­ofsa hjá okkur þetta árið, appel­sínu­gul við­vörun er eitt­hvað sem við erum orðin al­vön. Svo eru það hörmungarnar sem fylgja Co­vid-19 um allan heim. En, við ætlum ekki að sökkva okkur í of þungar vanga­veltur um það núna, páskarnir eru að koma með öllu súkku­laðinu sem þeim fylgja og við ætlum að njóta þess í tveggja metra fjar­lægð frá öðrum,“ segir Anna Björk. Eftir að Sjöfn fékk að smakka þessa var ekki aftur snúið, truflað súkku­laði French toast sem enginn stenst.

Bættu þessari upp­skrift við morgun­verðar­safnið þitt, þú átt eftir að njóta þessa aftur og aftur og hugsa hlýtt súkku­laðsins sem gleður hjarta og sál.

Súkku­laði French Toast

Fyrir 4

3 egg
185 ml. mjólk (eða kókos-/möndlu­mjólk)
1 msk. sykur
salt á mili fingra, ör­lítið
20 g smjör
8 sneiðar hvítt sam­loku­brauð
100 g mjólkur­súkku­laði, mjólkur­súkku­laði dropar frá Sírius, eða bara af­ganga af páska­eggja­brotum
flór­sykur til skreytingar

Mjólk, egg, salt og sykur eru slegin vel saman í rúm­góðu fati. Fjórar sneiðar af brauðinu eru lagðar í blönduna og velt einu sinni í henni.

Smjörið er hitað á pönnu og sneiðarnar eru settar á pönnuna, súkku­laðinu er dreift jafnt á milli sneiðanna. Hinar fjórar sneiðarnar eru settar í eggja­blönduna og bleyttar vel.

Sneiðarnar eru settar ofan á súkku­laðið og þrýst létt á. Sam­lokunum er snúið og þær steiktar á hinni hliðinni, þar til þær eru gylltar og súkku­laðið vel bráðnað. Teknar af pönnunni og settar á disk og stráðar með flór­sykri.

Njótið vel og verði ykkur að góðu.

Anna Björk Eðvarðsdóttir1205.jpg

Anna Björk Eðvarðsdóttir nýtur sín í eldhúsinu að töfra fram sælkerakræsingar sem bráðna í munni.