Tómas: myglan dró úr mér allan mátt

\"Orsök veikinda minna af völdum myglusvepps má rekja til þess að ég fékk nýja og prýðisgóða skrifstofu á Landspítalanum þegar ég varð prófessor í skurðlækningum - og smám saman missti ég bara alveg heilsuna eftir það.\"

Þannig lýsti Tómas Guðbjartsson, hjarta- og lungnaskurðlæknir upphafi eins erfiðasta tímabils í lífi hans í viðtalsþættinum Mannamáli á Hringbraut á miðvikudagskvöld en þar ræddi Sigmundur Ernir við hann um líf og störf læknisins, í gleði jafnt sem sorg. Þáttinn má sjá hér á vef stöðvarinnar, svo og í klippum inni á hringbraut.is.

\"Ég sveiflaðist sumsé frá því að vera afar heilsuhraustur og lítið kvefsækinn yfir í það að vera með alls konar einkenni þreytu og veikindi,\" hélt Tómas áfram lýsingu sinni og kvaðst hafa verið afskaplega lengi að kveikja á því sjálfur hvað væri eiginlega í gangi: \"Í fyrstu hélt ég að þetta mætti rekja til meira álags í nýju starfi mínu sem prófessor og eins fór mig að gruna að slappleikann mætti tengja við nýlega göngu mína á hæsta fjall Afríku, Kiljimanjaro þar sem ég varð hæðarveikur, en svo ágerðust veikindin svo mjög eftir því sem á leið að ég mátti ekki lengur sjá nokkurn kollega minna á göngum spítalans að ég bar ekki upp við hann spurningu um hvað í raun og sann gæti verið að mér.\"

Hann segist hafa verið kominn á sýklalyf og stera til að slá á vandann sem hafi dregið úr honum meira og minna allan mátt, en svo hafi hann að lokum endað í aðgerð og þá hafi að komið í ljós hvers kyns vandinn var; myglan á skrifstofunni hafi að öllum líkindum reynst svarið við þessari ráðgátu: \"Það var þá,\" sagði Tómas \"sem ég áttaði mig á því hvað við læknar vitum lítið um svona veikindi sem tengja má við myglu og hvað fáfræði okkar og kannski fordómar í þessum efnum eru miklir.\"

Hann segist af þessum sökum hafa ákveðið að stíga fram og segja sögu sína af því hann vissi að það voru ekki bara tugir heldur hundruð starfsmanna á þessum stóra vinnustað hans sem ratað höfðu í samskonar vandræði og hann: \"Og svo reyndist það nú vera þannig að það voru mun fleiri landsmenn sem þekktu til þessa vanda en mig hafði órað fyrir og höfðu upplifað svipaða líðan og ég. Viðbrögðin við sögu minni voru í reynd bæði mikil og sterk. Ég held ég hafi aldrei kynnst eins miklu þakklæti fólks fyrir að segja þessa sögu mína frá því ég kom heim sem læknir,\" sagði Tómas í þættinum.

En ánægjan var ekki endilega allra: \"Ég var líka gagnrýndur fyrir þetta mas mitt,\" sagði hjartalæknirinn í Mannamáli: \"Einhverjum kollegum mínum fannst ég vera að taka niður fyrir mig sem fagmaður af því orsakasamhengið á milli myglu og veikinda er ekki endilega augljóst og auðsannað. Það breytir því samt ekki að fólk er veikt af þessum sökum,\" sagði Tómas \"og það verður að hjálpa því.\"

Hann hefur náð fullum bata \"og þess þá heldur að segja fólki frá þessu,\" sagði sjúklingurinn fyrrverandi og læknirinn núverandi í þættinum sem opnar afar forvitnilega bók um líf og starf skurðlæknis á þjóðarspítalanum á Íslandi í dag.

Mannamál eru frumsýnd öll miðvikudagskvöld á Hringbraut klukkan 21:00, en endursýnd á laugardags- og sunnudagskvöldum.