Ástandið í Sjálfstæðisflokknum er helsta umræðuefni þeirra sem ennþá nenna að fjalla um stjórnmál hér á landi. Flokkurinn logar stafna á milli. Ólund hinna gömlu er ærandi. Þar fara fremstir menn sem höfðu völd og virðingu en ekki lengur. Þá er tekist á um lausan ráðherrastól sem losnaði þegar Sigríður Andersen hrökklaðist frá völdum.
Vefmiðlar birtu skrif í síðustu viku um að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir tæki við embætti dómsmálaráðherra í sumar. Hér er um gamla frétt að ræða. Náttfari fullyrti þetta í mai sl. Ekki verður gengið frá þessu fyrr en í byrjun september því formaður flokksins þarf að halda öllum vonbiðlunum volgum fram yfir afgreiðslu þriðja orkupakkans þann 1. september. Þeir þurfa allir að kjósa með formanninum í því erfiða máli.
Bjarni Benediktsson er fyrir löngu búinn að ákveða að Áslaug Arna taki við embættinu. Fleiri þingmenn sækja það fast. Þar á meðal Brynjar Níelsson og Birgir Ármannsson sem báðir eru löglærðir og einnig Páll Magnússon, fyrsti þingmaður Suðurlands. Jón Gunnarsson er einnig tilkippilegur - svo ekki sé meira sagt! Þá hvarflar víst að Sigríði Andersen að hún geti komið til baka inn í ríkisstjórn. Hún mun vera ein um þá skoðun.
En stóra málið í Flokknum er hins vegar hver taki við formennsku af Bjarna Benediktssyni sem væntanlega dregur sig fljótlega í hlé. Rætt hefur verið um að hann vilji að Þórdís Kolbrún ráðherra og varaformaður taki við. Hana skortir bæði reynslu og bakland innan flokksins. Einmitt það sem Guðlaugur Þór Þórðarson hefur nóg af. Hins vegar vilja flokkseigendur, með Bjarna í fararbroddi, annan en Guðlaug Þór í formannssætið. Þeim er ljóst að Guðlaugur Þór færi með sigur af hólmi ef kosið yrði milli hans og Þórdísar.
Vegna þessarar stöðu hefur verið litið út fyrir núverandi þingflokk. Einhverjir munu hafa nálgast Davíð Oddsson og spurt um áhuga hans á formannsframboði að nýju. Jafnvel hann sagði nei við því, trúlega minnugur þeirrar útreiðar sem hann hlaut í forsetakosningunum 2016.
Þá hafa menn velt fyrir sér að finna mann úr atvinnulífinu. Og nú er staldrað við nafn Tómasar Más Sigurðssonar sem er að koma heim eftir stjórnunarstörf hjá Alcoa erlendis. Tekið var fram að hann hefði ekki enn ráðið sig í starf á Íslandi.
Það skyldi þó aldrei vera að Bjarni sé búinn að finna manninn?
Þó Tómas sé vænn maður mun hann ekki stöðva Guðlaug Þór, kæmi til formannskosninga milli þeirra.