Tölum möguleikana upp en ekki burt

Sjónvarpskonan Sirrý er búin að vera dugleg að sækja landið sitt heim í sumar og getur ekki annað en dáðst að athafnasemi margra frumkvöðla hringinn í kringum landið sem vakið hafa marga bæi af værum blundi.

Henni finnst stundum talað eins og allir séu að flytja til Noregs og hér sé ekki búandi. En þvert á móti: \"... mér finnst hvetjandi að horfa á þá sem eru um kyrrt og gera það besta úr aðstæðum sínum og annarra. Nýlega var ég á ferð á Hofsósi og kynntist einstaklega skemmtilegu fólki, náttúruperlum og sögufrægum stöðum svo eitthvað sé nefnt.\"

Hún nefnir Ingvar Daða Jóhannsson sem rekur fyrirtækið Haf og land ehf. í Skagafirði: \"Ég fór með honum í siglingu út í Málmey, Þórðarhöfða og í sjóstangaveiði.  Þorskurinn hreinlega stökk upp í bátinn. Og ég sá með eigin augum að lundinn er ekki bara til uppstoppaður í túristabúðum,\" skrifar Sirrý í nýjum pistli sínum á hringbraut.is. 

\"Ingvar Daði er menntaður smiður,\" skrifar hún ´æafram \"en lenti í slysi og getur ekki starfað við iðn sína. Þá snéri hann sér að öðru: Fékk sér bát og stofnaði fyrirtæki. Sigling með honum er einstök upplifun og var reyndar toppurinn á Íslandsferð 12 ára stráks frá Þýskalandi sem veiddi 12 þorska og hafði aldrei skemmt sér betur.\"

Hún nefnir fleiri til sögunnar: \"Og það væri líklega hvorki búandi né starfandi á Hofsósi í dag nema fyrir starf hins athafnasama hugsjónamanns Valgeirs Þorvaldssonar bónda á Vatni. Hann sá atvinnumöguleikana í sögu staðarins og er maðurinn á bak við Vesturfarasetrið á Hofsósi. Þangað koma þúsundir manna um langan veg til að finna rætur sínar, fá svör við ýmsum spurningum sem Valgeir grefur upp úr gagnagrunni,\" skrifar sjónvarpskonan.

Niðurstaðan er þessi. \"Fjölmörg störf hafa skapast við að byggja upp safnið, reka það og þjónusta gestina.  Gistiheimili, veitingastaðir, hestaleigur og fjölmargt annað þarf að vera til staðar fyrir gesti Vesturfarasetursins. Restaurant Sólvík er t.d. ljómandi góður veitingastaður í Gilinu á Hofsósi.\"

Sirrý segir - og meinar það: \"Höfum orð á því sem vel er gert og tölum möguleikana upp en ekki út og burt.\"