Tökum ístrunni fagnandi!

 

Það er hluti af vinnunni minni að renna yfir fréttir annarra fjölmiðla en Hringbrautar á hverjum degi, jafnt innlendar fréttir sem er erlendar.

Ekki kemur á óvart að nú á annan í jólum er maður þegar búinn að lesa nokkrar fréttir um hvernig við förum að því að ná af okkur jólaspikinu.

Það er vandlifað. Ein mest lesna frétt Hringbrautar á árinu fjallaði um að streituspik kvenna væri ein mesta ógæfa sem lögð væri á maga og mjaðmir nútímakonunnar. Það er sumsé þrýstingur í gangi um að allir séu tipptopp vaxnir á sama tíma og fæstir nenna að hugsa um sálina. Það er líkt og koma eigi inn samviskubiti hjá okkur um leið og við erum orðin södd og glöð á aðfangadagskvöld að okkur verði refsað fyrir matarnautnina – og helst grimmilega.

Kalvínismi lifir góðu lífi, það er sú hyggja að ef þér líði vel muni það kosta þig kvalir síðar. Að þú eigir í raun ekkert gott skilið!

En margir hafa hag af samviskubiti þjóðar vegna t.d. aukakílóanna. Líkamsræktarstöðvar eru þar ofarlega á blaði. Í þessum fréttum er gjarnan rætt við einkaþjálfara sem leiðbeina fólki um hvað það þurfi að gera til að komast aftur í form eftir jól og áramót.

En hitt gleymist jafnan að ræða við hinn almenna mann eða konu. Og spyrja hvort það sé ekki bara allt í lagi þótt við fitnum dálítið á góðum stundum. Þarf samviskubit alltaf af fylgja því að brjóta upp dagana og gera vel við sig?

Ég ætla ekki að gefa mig fram sem „hamingusömuna hóruna“, því hún er ekki til, en ég ætla að gefa mig fram sem hamingjusömu „fitubolluna“. Fitubolla er reyndar allt of stórt orð en ég ætla að upplýsa án kinnroða að gömul vinkona bankaði upp á hjá mér á jóladag, vinkona sem ég ákvað að bjóða velkomna þótt ég hafi nú svo sem ekki saknað þess að fundum okkar tveggja hefur ekki borið saman um skeið.

Þessi gamla vinkona heitir ÍSTRA.

Hún er ístran mín og þetta er heilbrigð ístra, glaðleg vömb. Hún er hluti af líkama mínum og það er ekkert að henni þótt hún standi svolítið út í loftið. Til dæmis get ég verið þakklátur fyrir að mér að vitandi er ekkert krabbamein í þessari ístru ekki frekar en í öðrum líkamshlutum mínum svo ég viti til. Ekki eru allir svo heppnir. En þessi ístra segir: „Hver og einn verður að fá að vera eins og hann eða hún er og ekki reyna að segja mér annað.“

Ístran, vinkona mín, hefur margoft legið undir svívirðingum um að vera áhættuþáttur sem kyndir undir ýmsum velmegunarsjúkdómum. Ef hún myndi leggja undir sig allt sviðið, er vissulega gott að bregðast við. En sem hluti af jólum og áramótum er Ístran mín ágætis félagi.

Ég hef reyndar í hyggju að losa mig við hana aftur á nýju ári, en ekki með neinu offorsi. Frekar með nokkrum göngutúrum eða sundferðum en að hlekkja mig við ræktina fyrir framan spegil hvern dag og læra þar að hata þennan líkamshluta sem verði að losna við.

Vinir eru alls konar. Ístrur líka. Við eigum að fá að vera eins og við erum og eins og okkur líður best með.

Enginn veit betur en við sjálf hvort vaxtarlagið kemur niður á gleði okkar eða heilsu. Við þurfum ekki á því að halda að aðrir hafi okkar vaxtarlag á heilanum.

Og lýkur nú varnarræðu fyrir vinkonu okkar margra, hina ágætu Ístru.

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)