Berglind Hreiðarsdóttir köku- og matarbloggari og höfundur uppskriftabóka verður hjá Sjöfn Þórðar í þættinum Matur & Heimili á mánudagskvöld:
Þegar nóg er að gera á stórum heimilum, miklar annir og tíminn virðist ekki duga til að framkvæma öll heimilisverk t.d. eins og laga góðan kvöldverð fyrir fjölskylduna þá er gott að leita til þeirra sem luma á góðum ráðum fyrir matargerðina. Við komum aldrei að tómum kofanum þegar Berglind Hreiðars köku- og matarbloggari er annars vegar og hún er snillingur í því að töfra fram sælkeramáltíð á örskammri stundu í eldhúsinu. Berglind er líka ráðagóð þegar kemur að því að vera hagsýn í matarinnkaupum og spara um leið tímann.
Sjöfn Þórðar heimsækir Berglindi í eldhúsið á heimili hennar í Mosfellsbænum og fær hana til að töfra fram sælkeramáltíð á örskammri stundu fyrir alla fjölskylduna. Fyrir valinu hjá Berglindi var indverskur kjúklingaréttur sem er leikandi létt fyrir alla að framreiða og töfrar hún fram indverskt bragð sem fer með bragðlaukana á flug. „Það er svo frábært að geta farið í eina verslun og nálgast allt hráefnið, eins og ég gerði í þessu tilfelli. Ég fór í Bónus sem er hér í minni heimabyggð, Mosfellsbænum. Þar fékk ég allt hráefnið í þessa máltíð og sló nokkrar flugur í einu höggi, tók stuttan tíma í verslunarleiðangurinn, hagkvæm kaup og ég get töfrað fram indverska sælkeramáltíð fyrir alla fjölskylduna án mikils tilstands,“ segir Berglind. Aðspurð segist Berglind oft nýta sér að kaupa ljúffengar sósur sem eru tilbúnar í krukkum og dósum í stað þess að þurfa kaupa fjölmörg krydd og hráefni þegar hún vill töfra fram sælkeramáltíð á örskammri stundu og um leið vera með matarupplifun sem gleður bragðlaukana.
Missið ekki af heimsókn Sjafnar í eldhúsið til Berglindar þar sem Berglind töfrar fram indverska fjölskyldumáltíð sem kitlar bragðlaukana.
Þátturinn Matur & Heimili er á dagskrá öll mánudagskvöld klukkan 20.30 og er að jafnan ferskur, fjölbreyttur og með persónulegum blæ.