Eitt frumlegasta bakarí landsins er að finna á Selfossi, G.K. bakarí sem þeir félagarnir Guðmundur Helgi Harðarson og Kjartan Ásbjörnsson reka og eiga. Rúmt ár er síðan þeir Guðmundur og Kjartan opnuðu bakaríið og lokkuðu til sín gesti og gangandi með bökunarilminum út Austurveginn. Báðir búa þeir í höfuðborginni og njóta þess að mæta á hverjum degi í bakaríið sitt á Selfossi og nýta sköpunarkraftinn í bakstrinum. Í þættinum Matur og Heimili í kvöld heimsækir Sjöfn Þórðar bakaríið og hittir Kjartan bakaradreng og fær að heyra söguna bak við tilurð þess að þeir fjárfestu í bakaríi á Selfossi, þrátt fyrir að búa í höfuðborginni.
Rúnturinn á Selfoss
Aðspurður segir Kjartan að þessi gjörningur að fjárfesta í bakaríi á Selfossi hafi verið tekin eftir rúntinn á Selfoss. „Ég var búinn að garfast aðeins í þroti fráfarandi bakarís í húsinu og bauð Guðmundi á rúntinn að koma og skoða þetta. Við fyrstu sín var þetta nú ekki stórglæsilegt en margir möguleikar. Við létum slag standa og breyttum og bættum því sem hægt var og líður vel með þær breytingar sem áttu sér stað.“
Innblásturinn sóttur í nærumhverfið
Þeir feta ótroðnar slóðir í bakstrinum og hafa skapa sér sérstöðu sem hefur hlotið verðskuldaða athygli. „Við leggjum mikla áherslu á að nota aðeins hágæða hráefni og sækjum innblástur í nærumhverfi okkar. Erum duglegir að rótera úrvalinu í bakaríinu og í rauninni að baka það sem okkur langar að hverju sinni, “ segir Kjartan og leikur listir sínar í bakstrinum og töfrar fram ekta franskt pastry, freistingu sem erfitt er að standast.
Ilmurinn verður lokkandi í þættinum Matur og heimili í kvöld klukkan 20.00 og aftur klukkan 22.00.