Það bar til tíðinda fyrr í sumar að Haraldur Benediktsson alþingismaður kom auga á lausn á átökunum milli þingflokks og grasrótar Sjálfstæðisflokksins um aðildina að innri markaði Evrópusambandsins og orkupakkann.
Hann leggur til þjóðaratkvæði einhvern tíman í ófyrirsjáanlegri framtíð um hugsanlegan sæstreng, sem utanríkisráðherra hefur þó oft sinnis bent á að ekki er verið að taka afstöðu til í því máli sem fyrir liggur.
Spurning um samstarfshæfi
Í fyrstu virkar þessi tillaga því eins og út í hött. En þegar betur er að gáð gæti hún virkað eins og töfralausn; ódýr og einföld.
Haraldur eins og aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafna alfarið að það mál sem fyrir liggur verði leyst með allsherjaratkvæðagreiðslu allra flokksmanna. Það er skiljanlegt.
Þingflokkur sjálfstæðismanna ber ábyrgð á því að ríkisstjórnin hefur verið lömuð í orkupakkamálinu í tvö þing samfleytt. Ef þingflokkurinn myndi eftir allan þann tíma segja sig frá málinu með þeim hætti væri ekki unnt að áfellast forystumenn annarra flokka þótt þeir spyrðu sig þeirrar spurningar hvort hann væri samstarfshæfur.
Þegar öllu er á botninn hvolft eru nokkrar ástæður fyrir því að tillaga Haraldar verðskuldar stuðning.
Formleg viðurkenning á að andstæðingar orkupakkans hafa rangt fyrir sér
Stór hluti grasrótarinnar í Sjálfstæðisflokknum virðist ranglega telja að samþykkt þriðja orkupakkans þýði að Evrópusambandið geti í framtíðinni ákveðið að tengja raforkukerfi Íslands við meginlandið en steypa landinu ella í skuldafen með himinháum bótakröfum. Margir í þeim röðum eru svo sammála staðhæfingum Morgunblaðsins um að þjóðin tapi með þessu fullveldi sínu.
Öllum er ljóst að þjóðaratkvæðagreiðsla getur ekki leyst þetta ágreiningsefni efnislega. Flutningsmaður tillögunnar hefur líka staðfest það í viðtölum. Við breytum sem sagt ekki samningsskuldbindingum við aðrar þjóðir einhliða með þjóðaratkvæði fremur en atkvæðagreiðslu á Alþingi.
Snilldin í tillögu Haraldar er aftur á móti sú að þeir sem samþykkja þetta þjóðaratkvæði viðurkenna þar með formlega þá túlkun að sæstrengsmálið sé alfarið á höndum Íslendinga en ekki Evrópusambandsins. Þjóðaratkvæði í ófyrirsjáanlegri framtíð hefði augljóslega ekkert að segja í þessari deilu ef löngu áður væri búið að afsala valdinu til Evrópusambandsins.
Það er mikils virði að draga þessa viðurkenningu fram.
Haraldur virðist líta svo á að vandinn sé af sálrænum toga fremur en málefnalegum
Haraldur segir góðar líkur vera á því að öll dýrin í skóginum verði vinir með þessu móti. Það bendir ótvírætt til þess að hann telji að innanflokksátökin séu fremur pólitískt sálarástand en ágreiningur um málefni og túlkun milliríkjasamnings. Ella væri vandséð að tillaga af þessu tagi gæti leitt til friðar.
Frjálslyndu flokkarnir þrír í stjórnarandstöðu gætu líka sýnt svolítinn pólitískan kærleika með því að hjálpa stjórnarflokki í kreppu á þessum forsendum; ekki síst í ljósi þess að þingmenn þeirra hafa verið öflugri talsmenn málsins en þingmenn stjórnarflokkanna.
Kenningin um pólitískan ómöguleika gleymd um stund
Í þessu sambandi er líka rétt að hafa í huga að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn lofuðu þjóðaratkvæði um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið til þess að leysa úr innanbúðar ágreiningi fyrir kosningarnar 2013. Það mál var þá ofarlega á dagskrá. Eftir að flokkarnir mynduðu ríkisstjórn var þjóðaratkvæði svo skyndilega pólitískur ómöguleiki.
Nú kemur upp tillaga um þjóðaratkvæði um mál, sem ekki er á dagskrá, en gæti fræðilega tengst aðild Íslands að innri markaði Evrópusambandsins í fyllingu tímans. Tilgangurinn er enn á ný að leysa úr innanbúðarþrætum í Sjálfstæðisflokknum.
Þegar þingmenn Sjálfstæðisflokks og Miðflokks samþykkja tillöguna í atkvæðagreiðslu á Alþingi gleyma þeir ugglaust um stund gömlu kenningunni um pólitískan ómöguleika. Að því leyti hefur tillagan svolítið efnislegt gildi. Og kannski munu einhverjir brosa út í annað þegar þingmennirnir segja já í nafnakallinu.
Þetta eitt gerir tillöguna svolítið áhugaverða.