Tímamótadómur: myglan er leigusalans!

Tímamótadómur er fallinn á leigjendamarkaði þar sem leigutakar hefur fram að þessu staðið berskjaldaðir frammi fyrir vandamálum af völdum myglusvepps. Nú er ljóst að ábyrgðin er leigusalans.

Héraðsdóms Reykjavíkur dæmdi í gær pari bætur vegna myglu í íbúð sem þau leigðu á Suðurnesjum. Hólmsteinn Brekkan, framkvæmdastjóri Leigjendasamtakanna segir að dómurinn skipti sköpum í réttaindabaráttu sinna skjólstæðinga. Hér eftir verði að auka verði eftirlit með íbúðum á leigumarkaði, en það hafi verið í skötulíki hingað til og opinberu eftirlitskerfi til skammar.
 
Dómurinn í gær varðar par sem leigði íbúð á háskólagörðum á gamla varnarliðssvæðinu í Reykjanesbæ. Það fær nú greiddar 1,2 milljónir króna í bætur vegna myglu sem fannst í íbúðinni. Parið fær endurgreidda húsaleigu á átta mánaða tímabili og kostnað af hreinsun á innbúi þeirra, en parið fór fram á að fá innbú sitt bætt að fullu.
 
Fólkið taldi enn fremur að rekja mætti alvarleg veikindi í fjölskyldunni til myglusvepps en dómurinn tók ekki afstöðu til þess.
 

Dómkvaddir matsmenn staðfestu að mygla grasseraði í íbúðinni og að hún væri líklega tilkomin vegna vatnsskemmda. Þá byggðu matsmenn á niðurstöðu Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja um að íbúðin hafi verið óhæf til notkunar þegar þeir skoðuðu hana. Dómurinn telur að leigusala hafi átt að vera kunnugt um að mygla gæti leynst í íbúðinni. Ekki var þó gerður fyrirvari um slíkt í leigusamningi.

Hólmsteinn Brekkan, framkvæmdastjóri Samtaka leigjenda, fagnar niðurstöðu dómsins og bendir á að mörg sambærileg mál séu nú fyrir dómi. Hann segir að þetta sé mest afgerandi dómur sem hefur fallið um þessi mál hér á landi og að hann gæti rutt brautina fyrir aðra í svipaðri stöðu: \"Ég á ekki von á öðru en að þetta muni halda áfram og að það verði vonandi tekið á þessu vandamáli. Eins og við höfum verið að benda á, þá er eftirlit ekkert á leigumarkaði og ekkert með ástandi á því húsnæði sem verið er að leigja út. Þetta er mjög útbreitt og alvarlegt vandamál. Hingað til hefur þetta verið heit kartafla sem hið opinbera hefur ekki viljað taka á,“ segir hann við fréttastofu RÚV í morgun.