Við reynum flest hver að sýna umhverfinu virðingu, enda um framtíð komandi kynslóða að tefla. Við reynum það flest, nema þá kannski helst Framsóknarflokkurinn og kjósendur hans. Þar á bæ hefur umhverfið og náttúran iðulega vikið vegna álvera, vegna vonar um stundargróða, vegna tenginga sem framsóknarmenn hafa við athafnamenn í héruðum sem græða á framkvæmdum og stóriðjurekstri, hinum sömu héruðum og vigta hvert atkvæði í þingkosningum allt að tvöfalt á við atkvæði greitt í Reykjavík.
Við sáum þessa skammsýnu græðgi framsóknarmanna birtast fyrir austan þegar Alcoa fékk eitt stykki álver á silfurfati. Það sem meira er, Alcoa þarf ekki að greiða nema brot af markaðsvirði fyrir rafmagnið auk þess sem náttúruperlum var sökkt og annað sprengt upp. Norsk Hydro sýndi samfélagslega ábyrgð þegar fyrirtækið sagði nei takk við Valgerði Sverrisdóttur og co sem vildi ólm bjóða norska félaginu í dansinn hingað. Siv Friðleifs skeit þannig á sig sem umhverfisráðherra þegar hún sneri ákvörðun skipulagsyfirvalda að frá og með þeim degi varð manni ljóst að allt væri falt í heimi Framsóknarflokksins fyrir fé. Og þá ekki síst skynsemin. En vitaskuld ber mesta ábyrgð Halldór Ásgrímsson, Finnur Ingólfsson og aðrir sem reru þar bæði undir og ofan á. Það er m.a. vegna glórulausra samninga sem nú er uppnám. ESA segir að það gangi ekki að ívilna völdum auðhringum með undirboði á rafmagni. Auðhringum sem borga ekki einu sinni skatta hér á landi. Afleiðingar af kvörtun ESA gætu orðið miklar fyrir Ísland. Verður spennandi að sjá málsvörnina, hún virðist fyrirfram töpuð.
En þótt við séum flest hver umhverfisvæn, ólíkt Framsóknarflokki fyrri tíma a.m.k., séum farin að flokka sorpið okkar osonna, myndum leggja á okkur kílómetra langa göngu til þess eins að fjarlægja eina svalafernu sem við myndum rekast á í hálendisvin, þótt við höfum orðið fyrir vakningu eftir Parísarfundinn og atlögur gegn Rammaáætlun hafi komið umhverfishjartanu til að tifa sem aldrei fyrr, fer í taugarnar á mér að eldgamalt deilumál hér á landi sé enn flokkað sem umhverfismál og hermt að þeir sem gangi gegn meginstraumslínu séu þjóðníðingar.
Ég er að tala um nagladekkin. Þá á ég ekki við að þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu geti ekki vel komist af án nagladekkja, það geta langflestir sem búa sunnan heiða. Ekkert að því að taka leigubíl nokkra daga á vetri ef þannig viðrar. En að búa á Akureyri fyrir norðan og aka ekki um á negldum dekkjum að vetri til er hrein og klár lífshætta.
Trúiði mér, ég hef gert tilraunir til að losa mig við naglana. Ég geri mér vel grein fyrir skemmdum nagla á malbik, svifryk er mikið mein, helst af öllu vildi ég komast hjá því að þurfa nokkru sinni að rispa götur með nöglum. Og ég prófaði: Tvo vetur í röð var ég á heilsársdekkjum svokölluðum, þeim bestu í boði. Þau virkuðu 90% ökutímans. En þá voru eftir þessi 10% og lá nærri að ég dræpi fjölskylduna tvisvar eða þrisvar, akandi um í glerhálku. Ekki vegna ofsaaksturs heldur t.d. þegar það var svo hvasst að bíllinn hnikaðist hægt og rólega út af þjóðvegi, kyrrstæður, af því að það voru engir naglar til að festa sig við svellið.
Sá sem býr á Akureyri og sinnir atvinnu sem kallar á tíð ferðalög til Reykjavíkur á ekkert val. Og á ekki að þurfa að vera í vörn. Ég mun aldrei gleyma nokkrum atvikum þar sem lukkan ein virtist ráða hvernig nagladekkjalausa förin endaði. Í öllum tilvikum var ég á heilsársdekkjunum.
Þetta snýst um ökulag en ekki dekk, hef ég heyrt algóða umhverfissinna segja. Það er ekki satt. Öryggi fjölskyldunnar stendur og fellur með nagladekkjum á norðlenskum vetrum. Sú er mín reynsla.
Þess vegna gladdi það mig að heyra í Ingu Davíðsdóttur sérfræðingi hjá Vegagerðinni sem sagði í viðtali í morgun að það væri ekkert vit, nú þegar vika er liðin af sumri, að aka á fjallvegum norðanlands án þess að vera á negldum dekkjum.
Það er rétt hjá Ingu. Kemur því ekkert við hvort maður er umhverfisvænn eða ekki. Öryggið trompar annað þegar kemur að því að aka um götur og þjóðvegi með sjálfa framtíð Íslands í bílnum; börnin okkar.
\"Það væri vítavert að ætla sér að fara yfir fjallvegi núna norðanlands á sumardekkjum og valda kannski slysi,\" sagði fulltrúi Vegagerðarinnar í viðtali við Rás 2 í morgun.
Vítavert!
Björn Þorláksson