Til þeirra sem syrgja og sakna

 

Erfitt hefur verið að fylgjast með fréttum síðustu daga þar sem hvert mannslífið á fætur öðru hefur tapast í umferðinni.

Þá eru ótalin þau opnu sár sem mörg okkar búa við eftir fráfall ástvina á árinu sem senn líður.

Aðrir hafa á árinu fengið sjúkdómsgreiningu sem kann að breyta mati þeirra og fólksins í kring á gildi tímans og hvernig við notum hann.

Það er gjöf að fá að lifa hvern dag.

En það er heldur ekki sjálfgefið að allir séu glaðir á jólum.

Mig langar að birta hér nokkur fátækleg orð sem ég setti á blað fyrir vin sem féll frá í blóma lífsins. Þau eru ætluðum þeim sem syrgja og sakna nú um jólin.

ég trúi því vart
þú sért farinn

enda er það 
sennilega 
ekki satt

því aldrei
aldrei
hefurðu verið eins oft 
hjá mér

og síðan þú fórst

 

 

Hugsum hvert til annars.

Hin raunverulegu verðmæti liggja í okkur sjálfum, samskiptunum, vináttunni, kærleikanum.

Enginn er svo blankur að hann geti ekki gefið öðrum - þótt ekki sé nema hlýja hugsun.

Ást og friður
Björn Þorláksson

(Þessi pistill birtist fyrst í Kvikunni á Hringbraut)