„Enn eiga þar til bær stjórnvöld eftir að varpa ljósi á vinnubrögð Samgöngustofu í þessu máli og raunar sætir það furðu að aldrei á síðustu mánuðunum í starfsemi WOW air hafi stofnunin tekið í taumana.“
Þetta er tilvitnun í nýútkomna og einkar athyglisverða bók Stefáns Einars Stefánssonar viðskiptaritstjóra Morgunblaðsins. Í bókinni er gerð grein fyrir risi og falli WOW air, þess vinsæla flugfélags. Það er ævintýraleg saga sem hefur margar hliðar. Og forstjóri félagsins á ugglaust ýmislegt ósagt.
Rétt ákvörðun að ríkisvæða ekki félagið
Í niðurlagi bókarinnar víkur höfundur aftur á móti að tveimur spurningum sem lúta að stjórnvöldum. Annars vegar þeirri pólitísku spurningu hvort bjarga hefði átt félaginu og hins vegar þeirri grafalvarlegu spurningu hvers vegna stjórnvöld tóku úr sambandi gildandi samevrópska löggjöf á þessu sviði sem sett var meðal annars til að vernda hagsmuni neytenda.
Í bókinni eru færð fram gild rök fyrir því að óverjandi hefði verið að nota peninga skattborgaranna til að bjarga félaginu á loka metrunum. Ríkisstjórnin tók rétta ákvörðun í því efni að því er ríkissjóð sjálfan varðar.
Varðandi síðari spurninguna dregur höfundur með skýrum hætti fram að engin viðhlítandi svör hafa verið gefin. Margt bendir þó til að þetta sé ein af alvarlegari brotalömunum í íslenskri stjórnsýslu eftir hrun.
Lögum um neytendavernd vikið til hliðar án heimildar Alþingis
Málið snýst um það að hér á landi eru í gildi samevrópsk lög sem bindur leyfi til flugrekstrar við það skilyrði að flugrekandi hafi laust fé til rekstrar í tiltekinn tíma. Fullnægi hann ekki því skilyrði bresta forsendur fyrir leyfinu.
Tilgangur þessara laga er meðal annars að tryggja jafnræði í viðskiptum. Neytendur borga fyrir þjónustu marga mánuði fram í tímann. Þeir vita ekkert um fjárhagslega áhættu í þeim viðskiptum en seljandi veit allt um hana. Lagareglunum er ætlað að jafna þennan aðstöðumun.
En um leið er reglan til mikilla hagsbóta fyrir fyrirtækin. Það auðveldar þeim sannarlega að selja þjónustu sína fram í tímann þegar neytandinn hefur vissu um að nægjanlegt rekstrarfé er til staðar næstu mánuði. En til þess að verndin virki má neytandinn ekki vera í óvissu um það hvort stjórnvöld framkvæma lögin.
Stefán Einar sýnir fram á það í bókinni að þegar á síðari hluta ársins 2017 átti Samgöngustofu að vera ljós alvarlegur lausafjárvandi félagsins. En ekkert gerðist. Einnig bendir hann á að bresk stjórnvöld beittu þessu ákvæði gagnvart flugfélaginu Monarch.
Nítjándu aldar hugmyndafræði um lögmál frumskógarins
Ríkisstjórnin setti á fót sérstaka ráðherranefnd til þess að fylgjast með kerfislega mikilvægum fyrirtækjum. Ráðherranefndin skipaði síðan undirnefnd og fékk til liðs við sig sérfræðinga. Því verður trauðla trúað að ráðherranefndin hafi ekki fengið allar upplýsingar. Þá hefði allt þetta verið sjónhverfing.
En hvers vegna voru lögin ekki framkvæmd? Fjármálaráðherra fékk þá spurningu í Kastljóssviðtali eftir endanlegt fall flugfélagsins. Hann sagði þar að það væri hans skoðun að markaðurinn ætti að sjá um að stöðva félög en ekki stjórnvöld. Ekki kom fram hvort þetta var einnig ástæðan fyrir því að Samgöngustofa ýtti lögunum til hliðar.
Þessi skýra afstaða lýsir nítjándu aldar hugmyndum um lögmál frumskógarins á markaði þar sem menn hafna öllum reglum til að jafna aðstöðumun þeirra sem eiga í markaðsviðskiptum. Þetta er vitaskuld pólitískt sjónarhorn sem menn takast á um í pólitískri rökræðu. Að vísu heyrist pólitísk hugsun af þessu tagi afar sjaldan nú orðið. Athyglisvert er að forsætisráðherra hefur aldrei andmælt því að þetta væri pólitískt viðhorf ríkisstjórnarinnar.
Vanræksla eða ásetningsbrot?
En eitt er að hafa pólitíska skoðun. Annað er að bera stjórnskipulega ábyrgð á framkvæmd laga. Kjarni málsins er sá að hvorki stofnanir ríkisins né ráðherrar ríkisstjórnarinnar geta vikið gildandi lögum til hliðar af því að þeim líkar ekki sú pólitíska hugsun sem að baki þeim býr eða finnst óþægilegt að framkvæma þau. Það þarf að breyta þeim á Alþingi fyrst.
Að þessu virtu sést að í þessu tilviki getur verið um að ræða álitamál allt frá vanrækslu til ásetnings um að aftengja gildandi lög. Það er hlutverk stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis að skoða og eftir atvikum rannsaka alvarleg álitamál af þessu tagi og upplýsa almenning.
Rétt er að hafa í huga að framkvæmd gildandi laga hefði getað takmarkað verulega beint fjárhagstjón starfsmanna, viðskiptamanna og lífeyrissjóða svo ekki sé talað um almennt tap þjóðarbúsins. Það voru því ríkir almanna hagsmunir í húfi.
Hugsanlega hefðu virk lög einnig ýtt við félaginu til að hefjast handa við fjárhagslega endurskipulagningu í tíma.
Nefndin ætti að draga fram svör við ýmsum krefjandi spurningum í þessu sambandi. Var þetta vanræksla? Eða lágu pólitísk sjónarmið af því tagi sem fjármálaráðherra lýsti til grundvallar því að lögin voru ekki framkvæmd? Var ráðherranefndinni ljóst að lögum var vikið til hliðar? Er hugsanlegt að Samgöngustofa hafi verið undir pólitískum þrýstingi? Með öðrum orðum: Hvar liggur ábyrgðin.
Njóta viðskiptavinir Icelandair verndar laganna eða ekki?
Það þarf einnig að svara spurningunni hvort neytendaverndin hafi einungis verið tekin úr sambandi í þessu tilviki. Njóta viðskiptavinir annarra flugfélaga, til að mynda Icelandair, verndar samkvæmt lögunum eða ekki? Má Icelandair víkja frá kröfunum án afleiðinga?
Á að reikna með því að neytendaverndarreglum á öðrum sviðum eins og um eiginfjárkröfur banka verði vikið til hliðar ef á reynir? Líta embættismenn á orð fjármálaráðherra í sjónvarpsviðtalinu sem skilaboð?
Veruleikinn er sá að það ríkir alvarleg óvissa á meðan slíkum spurningum er ekki svarað.
Hvers vegna mátti nota peninga skattborgaranna á bankabók Ísavía?
Til viðbótar dregur bók Stefáns Einars fram að ekki hefur verið svarað með fullnægjandi hætti hvort lánafyrirgreiðsla Ísavía byggðist á jafnræðisreglu. Geta öll flugfélög sem lenda í lausafjárvanda fengið lán þar? Vissi ráðherranefndin af þessari lánastarfsemi? Hafði hún samþykkt hana?
Var eitthvað betra að nota peninga skattborgaranna til að bjarga félaginu í gegnum Ísavía en beint í gegnum ríkissjóð? Hvað skýrir þennan tvískinnung í afstöðu stjórnvalda til að bjarga félaginu með peningum skattborgaranna eftir því á hvaða bankabók ríkisins þeir lágu?
Til hvers er stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd?
Hér blasa við einhverjar brýnustu og mest krefjandi spurningar um eftirlit með opinberri stjórnsýslu og ráðherrum sem vaknað hafa eftir hrun. Og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis sefur enn værum svefni. Til hvers er nefndin?
Að minnsta kosti hefur hún ekki afsökun eftir útkomu bókar Stefáns Einars. Að réttu lagi ætti nefndin ekki að fá sumarfrí fyrr en hún hefur gefið þjóðinni svör við þessum spurningum.