Tíðindi á Seltjarnarnesi – flokkseigendum hafnað í prófkjöri

Þór Sigurgeirsson náði fyrsta sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi sem fram fór í gær. Kjörsókn var dræm, einungis 906 manns tóku þátt eða 62 prósent sem þykir lélegt þegar haft er í huga að fjórir sóttust eftir því að leiða lista flokksins.

Magnús Guðmundsson, forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs, var lengst af talinn sjálfsagður arftaki Ásgerðar Halldórsdóttur sem gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu. Búist var við yfirburðakosningu hans. Annað kom á daginn.

Magnús lenti í þriðja sæti sem er hrein og klár höfnun á honum og þeim sem mest hafa látið til sín taka í flokknum í seinni tíð. Í öðru sæti hafnaði Ragnhildur Jónsdóttir varabæjarfulltrúi. Svana Helen Björnsdóttir kom skemmtilega á óvart. Hún lenti í fjórða sæti og náði um helmingi greiddra atkvæða.

Helsti bandamaður Magnúsar Guðmundssonar, Pétur Árni Jónsson eigandi Viðskiptablaðsins, er talinn hafa skrifað grein í blað sitt undir dulnefni þar sem hann birti hrakspár um gengi Svönu í prófkjörinu vegna þess að hún væri Evrópusinni, en slíkt ætti ekki upp á pallborðið hjá sjálfstæðisfólki á Seltjarnarnesi. Úrslitin sýna annað og svo virðist sem Magnús Guðmundsson og stuðningsmenn hans séu illa læsir á umhverfi sitt í stjórnmálunum á Nesinu.

Þór Sigurgeirsson er vel liðinn maður í umhverfi sínu á Seltjarnarnesi. Hann er sonur Sigurgeirs heitins bæjarstjóra, sem réði ríkjum í bænum í aldarþriðjung við góðan orðstýr.

Þór mun leiða lista flokksins í komandi kosningum en gera má ráð fyrir að róðurinn verði þungur vegna margra umdeildra mála á kjörtímabilinu sem er að ljúka. Þá virðist ekki ríkja mikill einhugur innan flokksins og sannarlega hljóta það að teljast nokkur tíðindi þegar forseta bæjarstjórnar og formanni bæjarráðs er hafnað í prófkjöri með svo afgerandi hætti sem raun ber vitni

Gera verður ráð fyrir því að nú muni Magnús Örn Guðmundsson taka hatt sinn og staf og kveðja bæjarmálapólitíkina á Seltjarnarnesi. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins kalla eftir því. Við það losna embætti bæði forseta bæjarstjórnar og formanns bæjarráðs – hvernig svo sem úrslit sjálfra kosninganna verða.

- Ólafur Arnarson