Þyrluforeldrarnir

Karl Garðarsson þingmaður gerði á þingi fjölda barna með geðræn vandamál að umfjöllunarefni í vikunni. Hann sagði að andleg veikindi væru ein helsta ástæða brotthvarfs í framhaldsskóla og minntist á að nánast alla daga ársins kæmu bráðatilfelli inn á BUGL, oft tengt sjálfvígshættu barna og ungmenna. Sumpart má þakka þessa þörfu umræðu ítarlegri umfjöllun Morgunblaðsins síðustu daga um geðheilbrigðismál.

Teikn eru á lofti um betri tíma t.d. vegna skimunar sem til stendur að taka upp hjá ungmennum. Hitt er annað mál að kerfið eitt og sér mun aldrei  hafa allt að segja um geðheilsu barna og ungmenna. Línurnar um geðheilbrigðismál eru oft lagðar innan veggja heimilanna. Þótt flestir foreldrar standi sig vitaskuld vel ýtir félagsleg mismunun undir ýmsan vanda. Rannsóknir sýna svo eitt dæmi sé nefnt samband á milli geðrænna vandamála og fjármálavanda innan veggja heimilanna. Það segir sig sjálft að fjárhagsáhyggjur geta orðið mikill streituhvati í lífi fjölskyldna. Að vinna langa vinnudaga á lágum launum getur bitnað á tíma sem annars þyrfti að fara í uppeldi og þar með bitnað á heill barna. Þegar tekjulágir foreldrar þurfa til að ná endum saman að vinna 60-70 stunda vinnuviku (eins og dæmi eru um) getur sitthvað gefið eftir. Umræða um lýðheilsu getur því aldrei átt sér stað í tómarúmi án þess að stjórnmálamenn velti fyrir sér eigin pólitískri ábyrgð  á að allir borgarar búi við mannsæmandi kjör. Við ættum að hafa það að keppikefli að útrýma fátækt hér á landi. Þannig myndum við bjarga fjölda barna og sennilega spara ríkinu mikinn kostnað síðar.

Þessu óskylt langar mig að rifja upp ummæli bandarísks yfirlæknis í New York, læknis sem ég kynntist yfir kaffibolla hér á landi í sumar. Hann spurði margra spurninga um heilbrigðiskerfið okkar og bar það saman við sitt eigið. Úr heilbrigðismálum fórum við yfir í umræðu um uppeldismál og kom þá upp í orðum hans að einkum efnaðri foreldrar væru margir hverjir allt of uppteknir við að verja börnin ýmsum sársauka eða áföllum. Læknirinn kallaði slíka foreldra helicopter parenting. Á íslensku mætti þýða hugtakið sem „þyrluforeldra“.  Þeir sveima yfir höfði afkvæmis síns allan daginn, til að passa að ekkert komi upp á, því heimurinn er jú hættulegur staður – ekki satt?! Kerfisbundið sé passað upp á að börnin lendi ekki í neinum áföllum, hvorki stórum né smáum. Læknirinn kallaði börnin sem vendust þessu uppeldi „bómullarbörn“eða cotton wool kids. Fyrir þá sem vilja lesa sér til um ýmis rök gegn ofverndun barna rakst ég á þessa síðu hér.

En það sem vakti sérstaka athygli mína var að læknirinn sagði að fyrir nokkrum árum hefði hann rekið sig á að \"bómullarbörnin\" væru farin að hrannast upp á bráðamóttökum amerískra sjúkrahúsa. Ekki vegna þess að bein hefðu brotnað í eiginlegum skilningi eða stöðva þyrfti blæðandi sár heldur vegna mótlætis sem oft mátti rekja til þess sem læknirinn kallaði \"minniháttar ágreinings\". Börnin voru þá komin töluvert á legg þegar þau kynntust  í fyrsta skipti vanlíðan. Hún var meiri en svo til að þau treystu sér til að vinna úr henni sjálf og margvísleg líkamleg einkenni gátu fylgt. Niðurstaðan: Bráðamóttaka.

Saga hins ameríska yfirlæknis segir okkur e.t. v. eitthvað um að börn sem fá aldrei tækifæri til að dýfa hendinni í kalt vatn eru ekki endilega líklegri en önnur til að verða hamingjusöm á lífsleiðinni síðar.

En sagan breytir engu um að ekki er nóg gert í geðheilbrigðismálum hér á landi. Sálfræðiþjónusta ætti að vera sjálfsagður hluti heilbrigðiskerfsins. Efnahagur ólíkra einstaklinga má ekki stéttskipta þjóðinni lýðheilsulega. Það er hlutverk stjórnmálamanna að standa sína vakt og reyna að sporna gegn félagslegri mismunun.

Ábyrgð okkar foreldra verður á hinn bóginn sjaldnast undan skilin í svona umræðu.