Afsögn Vilhjálms Birgissonar, 1. varaforseta ASÍ, og Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, úr Miðstjórn ASÍ eru stórtíðindi á vettvangi vinnumarkaðsmála hér á landi. Auk þeirra sagði varaformaður VR sig úr Miðstjórninni.
Vilhjálmur Birgisson er einn reyndasti verkalýðsforingi landsins og Ragnar Þór er formaður fjölmennasta launþegafélags þjóðarinnar. Brottför þeirra er því mikið áfall fyrir ASÍ og skýr skilaboð um að þeim tveimur sé nóg boðið vegna hroka forseta ASÍ og dónaskapar sumra annarra verkalýðsleiðtoga.
Meginástæða brottfarar þeirra úr Miðstjórn er sú að þeir sýndu óskum atvinnulífsins skilning við þær aðstæður sem nú ríkja öllum að óvörum. Á sama tíma og tugir þúsunda eru að missa vinnuna vegna heimsfaraldurs veirusýkingar þá er komið að 3,5% launahækkun ASÍ-félaga samkvæmt kjarasamningi frá í fyrra. Samtök atvinnulífsins fóru fram á frestun á gildistöku hækkunarinnar sem ASÍ hafnaði, nánast með skætingi.
Þá kom fram sú snjalla hugmynd að lækka tímabundið mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóði um sömu fjárhæð, eða 3,5%, gegn því að umsamin hækkun sömu fjárhæðar tæki gildi nú í apríl. Mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóði er orðið allt of hátt og mjög íþyngjandi. Í ljósi þess er hugmyndin mjög snjöll við þær aðstæður sem nú ríkja. Fyrir liggur að 3,5% hækkunin nemur 50 milljörðum á ári fyrir atvinnulífið. Þeir peningar liggja ekki á lausu í þeirri stöðu sem nú er komin upp öllum að óvörum. Til að mæta þessum hækkunum hefur atvinnulífið ekki önnur úrræði en að segja upp fleira fólki.
Vilhjálmur og Ragnar Þór átta sig á þessu og vilja heldur verja fleiri störf með því að fara þessa leið en að sýna dónaskap og hroka sem mun fyrst og fremst bitna á fólki innan verkalýðshreyfingarinnar sem ætti þá á hættu að missa vinnuna.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar og einn af leiðtogum Sósíalistaflokksins, er grjóthörð á móti öllum tilslökunum og virðist frekar vilja fórna störfum félaga í verkalýðshreyfingunni en að koma til móts við atvinnulífið. Hér er á ferðinni fyrsta stóra málið þar sem hún og Ragnar Þór eru ekki samstiga. Margir telja sig greina að aðrir launþegaleiðtogar vilji nú gjarnan halda sig sem lengst frá henni en framganga Sólveigar Önnu gagnvart Reykjavíkurborg í verkfalli Eflingar þar hefur ekki orðið til að auka veg verkalýðshreyfingarinnar eða hennar sjálfrar.
Auðvelt er að skilja Ragnar Þór og Vilhjálm að vilja færa sig sem lengst frá öfgum Sólveigar Önnu. Engu að síður er nú unnið að því innan ASÍ að ná þeim um borð að nýju og fallast á tillögur þeirra um tímabundna lækkun mótframlagsins um 3.5% með það að markmiði að verja störf.