Það getur kostað sitt að halda hárinu góðu, þessari krúnu á höfðu velflests mannfólks, enda eru hárvörur á að giska lúxusvörur hér á landi - og margar hverjar henta einfaldlega ekki hárgerð fólks.
Af þessum sökum er ráð að skoða hvað náttúran sjálf hefur upp á að bjóða fyrir hárið, en á vefnum sykur.is er fjallað um hina heilögu þrenningu avakadó, kókosolíu og eplaedik sem geta breytt illa tilhöfðu hári í djásn á kolli sérhverra kvenna og þeira karla sem á annað borð hafa ennþá hár.
Avakadó er sagt auka gljáa. Og spurningin er þessi: Áttu ofþroskað avókadó í ávaxtaskál? Ekki henda því! Merðu fremur aldinkjötið með gaffli og berðu í þurrt hárið – frá miðju og út í enda. Láttu liggja í hárinu í ca. 20 mínútur, þvoðu hárið með góðu sjampói og notaðu næringu á eftir. Þegar ferlinu er lokið, á hárið að gljáa meir en venjulega.
Kókosolía er sögð græða slitna enda. Þú þarft sumsé ekki á rándýrri hárolíu að halda. Notaðu frekar nokkra dropa af kókosolíu, nuddaðu í báða lófa og berðu í hárendana. Kókosolían getur unnið kraftaverk á slitnum hárendum.
Og eplaedik er sagt djúphreinsa og fjarlægja eiturefni. Og þá er spurt: Er hárið líflaust og þreytt af langvarandi notkun hárvara? Þá ættirðu að bera eplaedik í hárið einu sinni í mánuði. Eplaedikið eykur á gljáa og lyftir hárinu. Hreinsaðu þó eplaedik-löginn vel úr hárinu, því hann er lyktsterkur.
Á vefnum sykur.is er að finna fleiri ráð í þessa veru.
Sumsé; gleðilegt hár!