Eitt kjánalegasta viðtal sem lengi hefur sést í íslenskum viðskiptablöðum birtist sl. fimmtudag í Viðskipta-Mogganum við lögfræðing sem heitir Jóhannes Rúnar Jóhannsson og er formaður slitastjórnar Kaupþings.
Viðtalið er greinilega pantað og tímasett þegar viðræður standa yfir milli þrotabús Kaupþings og íslenskra lífeyrissjóða um hugsanleg kaup þeirra á hlutabréfum í Arion-banka sem þrotabúið á 87% í. Tilgangur viðtalsins er að reyna að koma því á flot að það sé svo mikil eftirspurn eftir hlutabréfum í bankanum, einkum frá útlöndum, að bankinn verði ekki seldur nema við afar háu verði.
Þetta er auðvitað bara fyndið eða þá grátbroslegt. Á undanförnum árum hafa þrotabú bankanna dreift sögum með reglulegu millibili um að útlendingar séu í þann veginn að kaupa annan hvorn bankanna. Það hefur ekki orðið. T.d. voru ítrekað fluttar fréttir af því að Kínverjar væru nánast búnir að kaupa Íslandsbanka, það átti víst einungis eftir að kvitta undir pappírana. En ekki kom til þess og á endanum samdi slitastjórn Glitnis um að ríkið tæki öll hlutabréfin upp í skuld og eignaðist bankann sem mun gerast á næstu mánuðum.
Þessi niðurstaða varðandi Íslandsbanka helgaðist ekki af því að svo margir vildu kaupa bankann, heldur hinu að enginn kaupandi var að bankanum. Þó höfðu tilraunir til sölu hans staðið yfir með skipulegum hætti í meira en tvö ár. Ríkið fékk bankann í fangið vegna þess að eftirspurnin var engin.
Jóhannes Rúnar segir á einum stað í viðtalinu: “Arion-banki er Norður-evrópskur banki og stendur sig mjög vel í samanburði við aðra banka á því svæði. Sambærilegir bankar erlendis eru hátt metnir.”
Inn í þann samanburð vantar afar mikilvæga staðreynd: Á Íslandi eru gjaldeyrishöft í gildi og verða alla vega enn um sinn þó uppi séu áform um að létta eitthvað á höftunum í framtíðinni. Norrænu bankarnir sem Jóhannes Rúnar vísar til búa við aðstæður sem eru allt aðrar og miklu hagfelldari en hér á landi. Á Norðurlöndunum eru hvergi gjaldeyrishöft nema hér. Á meðan Íslendingar notast við íslenska krónu þá verða hér gjaldeyrishöft í einu eða örðu formi. Það gerir möguleika íslenskra fjármálafyrirtækja miklu lakari en í nágrannalöndunum og það hlýtur að hafa áhrif á verðlagningu banka hér á landi.
Það sem gerir þetta viðtal svo einstakt og í raun og veru drepfyndið er sá hluti þess sem fjallar um þóknanir til þeirra sem starfað hafa fyrir slitabú og þrotabú íslensku bankanna. Fólki hefur blöskrað þegar fram hafa komið upplýsingar um að lögfræðingar í stjórnum þrotabúanna hafi rukkað um 35 til 40 þúsund kr. á tímann og sótt sér jafnvel á annað hundrað milljónir á ári í þóknanir. En Jóhannes reynir að afla sér vorkunnar lesenda viðtalsins með því að segja m.a.: “………ég hef lagt allt mitt undir, atvinnuna, faglegt orðspor mitt sem lögmaður, fjárhag fjölskyldunnar og jafnvel heilsuna.”
Maður grætur bara úr sér augun við þennan lestur.
Við Íslendingar getum verið þakklát fyrir að eiga enn fólk sem er tilbúið að fórna sér svona fyrir okkur hin og leggja allt undir – meira að segja fjölskylduna og eigin heilsu. Mesta mildi að lögmaðurinn skuli enn vera á lífi.
Það þarf að hafa þrjá vasaklúta við höndina til að geta lesið þetta viðtal í heild sinni.