Skoðanakannanir mæla Framsókn með 10-11% þessa dagana, sem er svipað og verið hefur í allan vetur. Flokkurinn er að festast í þessu fylgi en var með 24% í Alþingiskosningum 2013 og fékk þá 19 þingmenn.
Fréttablaðið gerði glögga grein fyrir skiptingu þingsæta í blaðinu þann 13. mars. Þar kom fram að Framsóknarflokkurinn fengi 6 þingmenn kjörna miðað við niðurstöðu skoðanakönnunar blaðsins sem mældi þá með 10,1% atkvæða. MMR birtir nú nýja könnun sem staðfestir þetta og sýnir Pírata sem stærsta flokk þjóðarinnar.
Samkvæmt könnun FB eru 13 þingmenn Framsóknar fallnir og einungis 6 þingmenn eftir. Aðrar eins hruntölur hafa ekki sést í stjórnmálum á Íslandi. Lítum á nöfn þeirra sem næðu kjöri miðað við þá framboðslista sem voru í gildi fyrir 2 árum: Framsókn fengi 2 menn kjörna í norðaustur kjördæmi, Sigmund Davíð og Höskuld Þórhallsson í stað 4 í kosningunum. Líneik Sævarsdóttir og Þórunn Egildóttir féllu.
í norðvestur kjördæmi myndi Gunnar Bragi komast inn en tapa 3 þingsætum í kjördæminu. Þannig féllu Ásmundur Einar Daðason, Elsa Lára Arnardóttir og Jóhanna Sigmundsdóttir. í suðurkjördæmi kæmist Sigurður Ingi Jóhannsson og Silja Dögg Gunnarsdóttir að en tveir féllu, þeir Páll Jóhann Pálsson og Haraldur Einarsson.
Í Reykjavík fengi Framsókn ENGAN þingmann en hefur nú fjóra. Því féllu Vigdís Hauksdóttir, Karl Garðarsson, Frosti Sigurjónsson og Sigrún Magnúsdóttir ráðherra. Í suðvestur kjördæmi kæmist Eygló Harðardóttir ein inn en þeir Willum Þórsson og Þorsteinn Sæmundsson féllu. Þannig yrði bara einn þingmaður á vegum Framsóknar á öllu höfuðborgarsvæðinu.
Margir þeirra þingmanna sem féllu miðað við niðurstöður umræddra skoðanakannana hafa ekki náð að setja mark sitt á þingstörfin, eru nær óþekktir í þjóðfélaginu eftir setu sína á þingi í tvö ár. Þeir munu hverfa jafnhratt út úr þinginu eins og þeir komu óvænt þangað inn, flestir hverjir.