Í Fréttablaðinu í dag er haft eftir fjölmiðlakonu að hún hafi fallist á að starfa á útvarpsstöð án þess að fara fram á launagreiðslur fyrir vinnu sína. Uns rekstur stöðvarinnar myndi skila hagnaði.
Sá sem situr handan borðsins, vinnuveitandi konunnar, vildi ekki tjá sig um málið í Fréttablaðinu. Saga konunnar er því með vissum hætti óstaðfest en það er ágætis regla að trúa orðum almennings uns annað kemur í ljós. Sagan er ekki eindsæmi, hún vísar út fyrir sig sem stak í mengi fleiri frásagna sem benda til þverrandi réttar almennra launþega og að sama skapi til aukinna valda stjórnenda í hinum og þessum geirum atvinnulífsins. Geðþótti atvinnurekenda, blankheit eða græðgi kann að ráða meiru í dag um örlög og aðstæður starfsfólks en var þegar samstaða með launþegum var meiri og verkalýðsfélögin sterkari. Engin hugmyndafræði hefur átt meiri þátt í þessari þróun en nýfrjálshyggjan sem tekur mið af því að fólk sé bara vörur á markaði auðvaldsins.
Vitaskuld eru mörg góð fyrirtæki í landinu, margir góðir atvinnurekendur sem sýna samfélagslega ábyrgð, þykir vænt um starfsfólkið og gera vel við það. Fjölskyldufyrirtækið Kjörís í Hveragerði er eitt dæmi um fyrirtæki sem mælt hefur mikla ánægju starfsmanna. En of margar sögur hafa verið sagðar sem benda til þess að réttindi launafólks séu í ýmsum tilvikum fyrir borð borin. Í sumum geirum virðist framboð á vinnuafli meira en sem nemur eftirspurn sem getur orðið upphaf ákveðins vanda. Kann sú þróun að hafa byrjað hér eftir efnahagshrunið. Ef sjónum er sérstaklega beint að fjölmiðlafólki, þess umhverfis sem sá sem hér skrifar þekkir best til, hafa verktakasamningar leyst launasamninga af í mörgum tilfellum. Það þýðir að vinnuveitandi sleppur við ýmis launatengd gjöld, að sama skapi minnkar réttur verktakans á fjölmörgum sviðum. Einn þátturinn lýtur að atvinnuöryggi. Sá sem ekki nýtur atvinnuöryggis er ólíklegri en ella til að starfa sjálfstætt nema þá sérstaklega í þökk vinnuveitanda. Þess vegna er ósjálfstæði blaðamanna ekki bara einkamál þeirra heldur hagsmunamál alls samfélagsins. Undirgefnir og leiðitamir blaðamenn eru ólíklegri en ella til að stinga á þeim kýlum sem þarf að stinga á.
Atli Þór Fanndal blaðamaður hefur sagt að umhverfinu í íslenskum fjölmiðlaheimi megi á síðari árum jafna við „félagslegt undirboð“. Hefur heyrst meðal blaðamana að sá sem rukki sem minnst fyrir vinnu sína, gefi hana jafnvel, átti sig á að ef afurðir viðkomandi njóti ekki sýnileika sé hætta á að lífsbjargirnar hverfi smám saman. Margt bendir til að verkamenn á gólfi sem og fleiri stéttir glími einnig við þetta umhverfi, að réttindi launafólks séu fyrir borð borin og jafnvel dæmi um vinnuframlag án þóknunar. Mikill innflutningur vinnuafls frá útlöndum er staðreynd. Harðnandi launaumhverfi og ýmiss konar óbærilegur þrýstingur kann að leiða til þess í einhverjum tilfellum að fólkið kikni og verði öryrkjar. Þar með festist fólk í fátækragildru eins og Björk Vilhelmsdóttir hefur bent á. Fólkið á betra skilið en skammir frá þingmönnum. Á samfélagsmiðlum hefur verið spurt hvort þessi óheillaþróun sé nokkurs konar þrælahald 21. aldarinnar?
Athygli vakti í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í síðustu viku að allnokkrir þingmenn impruðu á því að atvinnulífið yrði að ganga í takt við nútímann. Þar var m.a. skotið á verkfallsréttinn og þann vanda sem blasti við samfélaginu fyrr á þessu ári, ekki síst í heilbrigðiskerfinu. Fara þarf varlega í því að skella skuldinni á almenning ef spenna skapast milli launagreiðenda og launþega. Allt sem miðar að ójöfnuði veikir lýðræðið. Það sem veikir lýðræðið kann að byrja sem lítið harmleyndarmál innan veggja heimilanna. Íslendingar eru stoltir og margir kunna að skammast sín fyrir að búa við launaumhverfi sem gerir þeirra rétt að engu.
Það er mikilvægt að standa upp og segja frá. Aðeins með því að ræða meinin í samfélaginu er hægt að vænta þess að meinin verði hægt að uppræta.