Tónlistarkonan Þórunn Antonía Magnúsdóttir kallar eftir því að fólk sýni þeim sem eru aldraðir eða með undirliggjandi sjúkdóma skilning og virðingu.
Tilefnið er COVID-19 kórónaveiran en eins og greint var frá á föstudag hefur neyðarstigi verið lýst yfir vegna útbreiðslu veirunnar hér á landi.
Þórunn Antonía segist í færslu á Facebook-síðu sinni vona innilega að fólk taki þessa veiru alvarlega. „Ég er svo þreytt á að lesa: „En þetta er bara eins og venjuleg flensa“ - „Ungt fólk þarf ekkert að óttast“ O.s.frv.“
Þórunn segir að flestir landsmenn eigi fjölskyldumeðlimi sem eru með viðkvæmt ónæmiskerfi eða aðra undirliggjandi sjúkdóma. Þessir einstaklingar megi ekki við því að veikast. Raunar megi enginn við því að veikjast.
„Heilsan er okkur allt. Já, þetta veldur ýmsum flækjum og vandræðum og t.d. eru ég og margir í mínum bransa að missa tekjur sem er jú erfitt,“ segir Þórunn sem bætir við að þetta sé tímabundið ástand sem fagfólk er að keppast við að ráða fram úr.
„Heilsan er allt. Vöndum okkur í þessu og sýnum þeim sem eru aldraðir, eða með undirliggjandi sjúkdóma skilning og virðingu,“ segir hún að lokum.