„Hvað eruð þið að ráðast á æru látins manns sem getur ekki svarað fyrir sig?“ er spuring sem fjölmiðlamaðurinn Þorsteinn J. svaraði í Fréttavaktinni í kvöld, um umfjöllun sína um barnaskólakennarann Skeggja Ásbjarnarson og meint barnaníð hans.
„Það er alveg réttmæt gagnrýni,“ svarar Þorsteinn og bætir við „Það eru margar raddir í þessu máli. Það eru margar sögur af Skeggja, sumir hafa góða, aðrir hafa slæma.“
Þá segir hann að eitt af markmiðum rannsóknarinnar hafi verið að staðfesta sögurnar um Skeggja, og vísar til viðmælanda sem sá meint brot Skeggja. „Þannig að fórnarlömbin væru ekki bara alein, það stæði einhvernveginn orð gegn orði. Heldur að sjá stærri mynd. Stóra myndin sem er að teiknast upp er frekar ískyggileg, verð ég að segja, og mjög raunaleg.“
„En það sem er að koma í ljós er nokkuð samfelld brotasaga,“ segir hann og bætir við að um sé að ræða kynferðisofbeldi sem hafi átt sér stað í tímum og í einkatímum sem hafi farið fram heima hjá Skeggja. Auk þess hafi hann beitt stúlkur andlegu ofbeldi. „Sem koma til dæmis með naglalakk, eða eyrnalokka, sem honum líkar ekki. Og hann niðurlægir þær stöðugt.“
Spurður út í það að Skeggi hafi verið dáður í samfélaginu, álitinn sem besti vinur barnanna, segir Þorsteinn að rannsóknin hafi meðal annars snúist um hvenær skólinn hafi komist að meintum brotum hans. „Það er það sem ég hef fengið staðfest frá þremur mismunandi heimildum að skólinn vissi af þessu, 1964 til 1966, mögulega fyrr, en ekki brugðist við.“