Áður fyrr var jafnan merking í Reykjavíkurbréfum Morgunblaðsins, úthugsuð skilaboð sem bréfritara fannst nauðsynlegt að koma á framfæri við lesendur blaðsins.
Þetta hefur nokkuð breyst í seinni tíð. Í stað þess að vera skjóða fyrir skilaboð til almennings eru bréfin orðin nokkurs konar loftvog á dægursveiflur geðs bréfritara. Stundum má vissulega hafa af þeim nokkurt gaman, þótt oftar séu þau hlægileg fremur en fyndin.
Á meðan hinn dæmalausi Trump sat í Hvíta húsinu, og raunar líka eftir að honum var vísað þar á dyr, átti þessi besti vinur harðstjóranna Pútíns og Kim jong-un staðfastan bandamann í bréfritara Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins. Óteljandi eru þeir dálksentimetrar sem bréfritari hefur varið í að mæra hinn furðulega fyrrum forseta.
Bréfritari má þó eiga það, fram til þessa, að hann hefur náð að skrifa bréfin sín til enda jafnvel þótt á köflum hafi verið snúið að lesa úr þeim heila hugsun.
Nú um helgina bregður hins vegar svo við hann gefst upp á miðri leið og í stað þess að ljúka bréfi sínu birtir hann ágæta þýðingu þjóðskáldsins Matthíasar Jochumssonar á Sveini Dúfu eftir finnska skáldið Runeberg, sem var uppi á 19. öld. Meira en helmingur bréfsins er lagður undir kvæðið í heild, en það er 28 erindi sem eru átta línur hvert.
Hvað gerðist? Þornaði blekið í pennanum?
Eða er þetta til merkis um að hér eftir verði Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins helguð 19. aldar þýðingum en ekki lofsöngvum um misheppnuðustu stjórnmálamenn og stefnur 21. aldarinnar?
Benda má bréfritara á ágæta þýðingu Matthíasar á Óþelló eftir Shakespeare, sem út kom 1882. Hún ætti að endast í nokkur bréf. Matthías var afkastamikill þýðandi svo af nógu er að taka.
Þá var Sveinbjörn Egilsson mikill meistari og þýðing hans á Hómerskviðum þykir einstök.
Höfundarréttur á þessum þýðingum er fallinn niður og því getur Morgunblaðið birt þær sér að kostnaðarlausu, sem gæti skipt máli hjá dagblaði sem aðeins um 10 þúsund manns sjá að staðaldri.
- Ólafur Arnarson