Þingmennirnir Þórhildur Sunna Pírati og Páll Magnússon Krati og þingmaður Sjálfstæðisflokks tókust á í Kastljósi á mánudagskvöld um vantrauststillögu á hendur Sigríði Andersen dómsmálaráðherra.
Skemmst er frá því að segja að Þórhildur Sunna malaði Pál Magnússon mélinu smærra í þættinum. Hún var greinilega vel að sér um málið og lagði höfðuáherslu á þá augljóu staðreynd að dómsmálaráðherra sem hlotið hefur dóm Hæstaréttar fyrir að brjóta lög vegna skipunar dómara getur ekki setið áfram. Dæmdur dómsmálaráðherra nýtur ekki trausts. Dæmdur dómsmálaráðherra hefur engan trúverðugleika. Dæmdur dómsmálaráðherra er ekki tekinn alvarlega. Dæmdur dómsmálaráðherra grefur undan trausti þjóðarinnar á dómsstólum landsins.
Páll Magnússon var illa undirbúinn og greinilega ekki nógu vel inni í málinu. Hann talaði um að stjórnarandstaðan hengdi sig í tæknilegar útfærslur sem væru aukaatriði. Páll virtist ekki skilja að dómur Hæstaréttar snýst alltaf um aðalatriði. Dómur Hæstaréttar er lokaorð sem verður ekki haggað. Þórhildur Sunna benti honum á það. Þegar Páll fann að hann var kominn út í horn, þá brást hann við með kunnulegum hætti: Með hroka og yfirlæti. Hann ráðlagði stjórnarandstöðunni að leggja ekki fram vantraust núna því ríkisstjórnin ætti eftir að gera miklu alvarlegri mistök á kjörtímabilinu. Þórhildi Sunnu þótti þetta stór yfirlýsing. Hún hélt áfram að rúlla yfir vesalings Pál sem koðnaði endanlega niður í þættinum.
Páll Magnússon verður að fara að skilja að hann þarf að koma lesinn í sjónvarpsviðtöl þar sem tekist er á um alvöru efni. Þetta er ekki eins auðvelt og að lesa fréttir af blaði í sjónvarpinu en það lá vel fyrir honum á árum áður.
Nú hafa Píratar og Samfylkingin lagt fram vantraust á dómsmálaráðherra. Þingið verður að taka tillöguna til afgreiðslu sem fyrst. Víst er að stjórnarflokkarnir munu verja ráðherrann eins og venja er. En það verður þungur kross að bera fyrir marga þingmenn. Ekki síst Vinstri græna sem þurfa nú að éta ofan í sig stór orð og grundvallarstefnu liðinna tíma. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er þegar komin í mikil vandræði út af þessu máli og það á bara eftir að versna.
Í nýlegri skoðanakönnun kom fram að 73% þjóðarinnar telja að Sigríður Andersen eigi að víkja úr ráðherraembætti. Þegar sú niðurstaða var greind niður á flokka kom í ljós að 92% Vinstri grænna vilja að henni verði vikið úr embætti. Það er óskemmtileg niðurstaða fyrir Katrínu formann sem sver Sigríði hollustueið þrátt fyrir augljósan vilja flokksmanna um allt annað.
Sigríður Andersen heldur áfram að svara með valdhroka eins og verið hefur. Það breytir engu. Þessi leikur er tapaður. Hún mun víkja úr ráðherraembætti fyrr en síðar. Hanna Birna Kristjánsdóttir ætlaði aldrei að víkja en hún hrökklaðist samt frá að lokum. Hanna Birna hlaut þó aldrei dóm eins og Sigríður hefur þegar hlotið.
Einhver velviljaður ætti að benda dómsmálaráðherra á þá gömlu og gildu speki að DRAMB ER FALLI NÆST.
Rtá.