Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar segir að mestu kjarabætur fyrir fólk og fyrirtæki sé uppstokkun á markaði daglegrar neysluvöru. „Við borgum meira fyrir mat en aðrar þjóðir sem við berum okkur saman við.“
Það sama eigi við um verð aðfanga í fyrirtækjarekstri lítilla og meðalstórra fyrirtækja, það sé einfaldlega of hátt. Hún nefnir dæmi um mann sem seldi rótgróinn vaxandi rekstur veitingahúss nýlega, losaði sig við íbúð sína og keypti sér nýja ódýrari með þeim orðum að hann hreinlega nennti ekki lengur að slíta sér út fyrir bankana. Þetta segir formaður Viðreisnar í aðsendri grein á Eyjunni.
Hún leggur til að verð á léttu víni verði lækkað svo um munar þannig að það þoli heilbrigða álagningu veitingafólks og segir ekkert því til fyrirstöðu að það sé gert strax í dag.
„Verð á aðföngum veitingastaða stendur mörgum þeirra fyrir þrifum. Veitingafólk getur ekki endalaust hækkað verðið á matseðlinum í takt við auknar álögur ríkisins. Verðið er löngu komið yfir þolmörk launafólks.“