Þorgerður katrín tryllti harðlínumenn í sjálfstæðisflokknum

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar flutti eftirtektarverða stefnuræðu á landsþingi flokksins um helgina. Ræðan var djörf og innihaldsmikil. Formaðurinn flutti mál sitt af myndugleika og talaði tæpitungulaust. Hún gagnrýndi núverandi ríkisstjórn sérhagsmuna í sjávarútvegi og landbúnaði og stefnu hennar sem miðast við kyrrstöðu í stað umbóta. Sjálfstæðisflokkurinn fékk harða gagnrýni sem mörgum flokksmönnum svíður greinilega undan. Sumir úr hópi harðlínumanna í flokknum hafa tjáð sig af takmarkaðri yfirvegun og virðast jafnvel vera algerlaga trylltir.

 

Ljóst er að Þorgerði Katrínu hefur tekist að klappa sumum Svartstakkanna öfugt. Trúlega vegna þess að þeir vita upp á sig skömmina, ekki síst af því að flokkurinn hefur leitt sósíalista til forsætis í ríkisstjórninni og Steingrím J. í embætti forseta Alþingis – eins og í þakklætisskini fyrir að skipuleggja aðförina að Geir Haarde í Landsdómshneykslinu.

 

Meðal þeirra sem hafa tjáð sig á samskiptamiðlum um ræðu formanns Viðreisnar með skætingi eru undirmálsmenn eins og Andrés Magnússon og Gísli Freyr Valdórsson sem hlaut dóm vegna embættisafglapa þegar hann var aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Gísli Freyr varð uppvís að lygum og blekkingum og er talinn hafa stórskaðað Hönnu Birnu og jafnvel valdið falli hennar. Þá birti Björn Bjarnason önug viðhorf sín. Það sætir engum tíðindum. Sjónarmið þessara manna skipta engu máli.

 

En það sem vekur mesta athygli er gremja Jóns Gunnarssonar þingmanns og fyrrum ráðherra. Hann virðist ekki vera í miklu jafnvægi þegar kemur að því að fjalla um Viðreisn. Jón lítur á þá sem svikara sem völdu með lýðræðislegum hætti að skipta um flokk, yfirgefa Sjálfstæðisflokkinn og ganga til liðs við nýjan og ferskan flokk, Viðreisn. Margir þeirra sem völdu þá leið gáfust hins vegar upp á Sjálfstæðisflokknum vegna svika við kjósendur og einnig vegna takmarkalausrar þjónkunar flokksins við sægreifa og bændur þar sem sérhagsmunir þeirra eru teknir fram yfir hagsmuni fjöldans, skattgreiðenda og neytenda. Jóni Gunnarssyni er fyrirmunað að skilja þetta. Vegna þess að allt of margir af þingmönnum og öðrum forystumönnum Sjálfstæðisflokksins hugsa eins og Jón, þá er flokkurinn að festast í 25% fylgi á landsvísu í stað 35-40% fylgis sem hann naut fyrir fáeinum árum.

 

Jón Gunnarsson er önugur þessa dagana. Það er alveg hægt að skilja það. Hann fékk að spreyta sig í 10 mánuði sem ráðherra samgöngumála í síðustu ríkisstjórn þar sem Sjálfstæðisflokkurinn átti sex ráðherra. Jón var sá eini þeirra sem stóð sig vel. En samt var hann settur út úr ríkisstjórninni við myndun vinstri stjórnarinnar þann 30. nóvember sl. Það er von að honum mislíki það.

 

Bjarni Benediktsson og Sigríður Andersen klúðruðu málum vegna vandræðamála sem tengdust föður Bjarna með svo klaufalegum hætti að það varð ríkisstjórninni að falli. Þau eru ábyrg fyrir því. Ekkert liggur eftir Kristján Þór Júlíusson og Þórdísi Kolbrúnu Gylfadóttur í ráðuneytum þeirra. Kristján var enn að “lesa sér til” um málefni menntamálaráðuneytisins þegar stjórnin féll og Þórdís hringsnérist í öllum málaflokkunum sem henni voru faldir. Hún gerði ekkert gagn á sviði ferðamála, nýsköpunar og iðnaðar. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra er duglegur eins og Jón. Hann nennti einnig að vinna og reyna að koma einhverju í verk. Vandi Guðlaugs var hins vegar sá að hann misskildi stærsta utanríkismálið gjörsamlega því hann mat það þannig að BREXIT-klúðrið hjá Bretum hafi verið til góðs, bæði fyrir þá og okkur Íslendinga. Það var því miður þveröfugt eins og nánast allir viðurkenna nú í Bretlandi. En ekki hérna heima því utanríkisráðherra Íslands fer ennþá villur vega.

 

Þessir fimm ráðherrar sem allir stóðu sig illa í síðustu ríkisstjórn, fengu að halda áfram í vinstri stjórn Katrínar Júlíusdóttur, formanns VG, en Jón Gunnarsson var settur út. Hann vann þó ötullega að mörgum framfaramálum og barðist frá fyrsta degi.

 

Auðvitað er Jón Gunnarsson sár og svekktur. Honum væri samt nær að láta reiði sína beinast í réttar áttir.

 

Rtá.