Þörf fyrir íbúðir hefur vaxið meira en sem nemur fjölgun íbúða á Íslandi. Miðað við tilteknar forsendur er útlit fyrir að þessi óuppfyllta íbúðaþörf minnki á næstu árum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu hagdeildar Íbúðalánasjóðs um íbúðaþörf á tímabilinu 2019-2040.
Samkvæmt skýrslunni er talið að framboð íbúða hafi verið í samræmi við þörf áramótin 2015-2016 en að íbúðum hafi fjölgað minna en nemur þörf síðan þá. Um áramótin 2018-2019 er áætlað að 5.000-8.000 íbúðir hafi vantað.
Þörfin fyrir íbúðir hefur vaxið hratt á undanförnum árum vegna mikillar fólksfjölgunar, breyttrar aldurssamsetningar og annarar lýðfræðilegrar þróunar. Fólksfjölgun hefur verið yfir sögulegu meðaltali undanfarin ár og aldrei mælst jafn mikil og árið 2017. Fjölgun íbúða í umfangsmikilli skammtímaleigu hefur aukið enn íbúðaþörf á undanförnum árum.
Einnig er bent á að samkvæmt miðspá mannfjöldaspár Hagstofunnar mun landsmönnum fjölga um alls 13 prósent á næstu 20 árum, sem er talsvert minni fólksfjölgun en verið hefur undanfarin 20 ár. Fjölgun íbúða þarf hins vegar að vera hlutfallslega meiri en fólksfjölgun vegna annarrar lýðfræðilegrar þróunar og óuppfylltrar íbúðaþarfar.
Helmingur nýrra heimila til 2040 verði einstaklingsheimili
Því er spáð að einstaklingsheimilum muni fjölga mest allra heimilisgerða á næstu árum, sem er breyting frá því sem áður var og gæti kallað á talsvert minni stærð íbúða hér á landi. Þá skortir að líkindum mun fleiri þriggja herbergja íbúðir inn á markaðinn en nú eru til sölu og leigu, en þá ályktun má draga af nýlegri spurningakönnun Íbúðalánasjóðs þar sem flestir aðspurðra sögðust vilja flytja í þriggja herbergja íbúð. Þegar spurt var um óska fermetrafjölda íbúðar var algengasta bilið 80-120 fm. Þær íbúðir sem er nú eru í uppbyggingu eru að meðaltali á bilinu 110-120 fm að stærð og eru því í efri mörkum þess bils sem mest eftirspurn er eftir.
„Nú eru um 30% allra heimila einstaklingsheimili en við áætlum að helmingur allrar fjölgunar heimila til ársins 2040 verði vegna einstaklingsheimila. Þetta er meðal annars vegna breytts fjölskyldumynsturs, minnkandi barneigna og mikillar fjölgunar eldri borgara á næstu árum. Mörg pör eignast nú aðeins eitt barn og margir eldri borgarar búa einir, auk þess sem algengt er að þeir sem eru tveir í heimili kjósi að minnka við sig húsnæði. Það mætti kannski segja að meðalíbúð framtíðarinnar sé 100 m2, þriggja herbergja og með frá einum og upp í þrjá íbúa. Það er mikil breyting. Um leið er þó rétt að minna á að enn vantar sárlega íbúðir sem eru minni en 100 fm. Hagkvæmar smáíbúðir ekki síst. Þar er ennþá stórt gat á húsnæðismarkaðnum sem þarf líka að uppfylla,“ segir Ólafur Heiðar Helgason, hagfræðingur í hagdeild Íbúðalánasjóðs.
Skýrsluna í heild sinni má lesa hér.