Nýr fjármálaráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, hefur ítrekað lýst því yfir eftir að hún tók við embætti fjármálaráðherra að hún myndi leggja höfuðáherslu á ráðdeild í fjármálum ríkisins og „velta hverri krónu fyrir sér“ eins og hún orðaði það. Það er í sjálfu sér gott að heyra og veitir ekki af eftir margra ára mikinn halla ríkissjóðs sem ekki sér fyrir endann á. Bullandi halli verður á ríkissjóði á yfirstandandi ári, þrátt fyrir auknar tekjur vegna vaxandi umsvifa í ferðaþjónustu umfram björtustu vonir. Eyðslan og útþensla ríkisins eru bara svo mikil að tekjuaukningin hverfur jafnóðum í hítina. Þá bendir allt til þess að fjárlög ríkisins fyrir árið 2024 verði afgreidd frá Alþingi í desember með tilfinnanlegum halla, jafnvel 200 milljarða króna halla. Það er því sannarlega tími til kominn að landsmenn fái ábyrgan fjármálaráðherra.
Þegar talað er um „ráðdeild“ í ríkisfjármálum á almenningur erfitt með að átta sig á því hvernig stóru og dýru kerfin eru rekin og hvað þau kosta. Það á einkum við um heilbrigðiskerfið, menntamálin og samgöngukerfið. Fólk á hins vega mun auðveldara með að sjá og skilja hvernig peningum er sóað í monthús og óþarfa bruðl í tengslum við æðstu stjórn ríkisins og fleira sem gert hefur verið til að þjóna lund einstakra stjórnarflokka. Um það er lítið rætt. Þagnarhjúpi er slegið um nokkur vond dæmi um sóun í monthús. Spyrja má hvers vegna svo er. Stjórnarandstaðan segir fátt um það og fjölmiðlar sýna þessum málum ekki mikinn áhuga. Lítum á nokkur af ljótari dæmunum um svona alvarleg fjárfestingarslys:
- Fimm hæða kontór af fínustu gerð yfir starfsmenn Alþingis og þingmenn. Húsið hefur verið reist á horni Vonarstrætis og Tjarnargötu, gríðarlegt bákn. Reynt er að halda upplýsingum um endanlegan kostnað frá fjölmiðlum með því að veita misvísandi upplýsingar þegar einungis er skýrt frá byggingarkostnaði hússins. Ekki er talað um innréttingar, ný húsgögn í allt húsið og kostnað við að koma tölvu- og tæknibúnaði upp. Gert er mikið úr því að húsaleiga sparist en þingið hefur verið með á leigu ágætt húsnæði við Austurvöll sem hefur reynst Alþingi prýðilega og því er engin þörf á að reisa nýtt monthús utan um skrifstofur þingsins. Ekki þyrfti að koma á óvart að kostnaður við þetta ævintýri endi í 12 milljörðum þegar allt verður talið með.
- Ríkisbankinn, Landsbankinn, hefur látið byggja stórhýsi yfir starfsemi sína á dýrustu lóð Íslands við gömlu höfnina. Mörg hundruð tonn af tilhöggnu grágrýti hafa verið límd utan á húsið í þeim tilgangi að skreyta það. Umrætt skraut er vægast sagt umdeilt. En engum dylst að það hefur verið rándýrt. Bankinn hefur starfað í mörgum húsum í miðborginni og alveg má rökstyðja að það hafi verið tímabært að hagræða í húsnæðismálum ríkisbankans. En þurfti að leggja dýrustu lóð landsins undir þessa starfsemi? Hefði ekki verið hægt að koma starfsemi bankans fyrir á miklu ódýrari og hagkvæmari stað? Auðvelt er að halda því fram og einnig er auðvelt að rökstyðja að bankinn hefði alveg getað starfað ótrauður áfram án þess að láta byggja yfir sig monthús sem trúlega mun ekki kosta minna en 20 milljarða með innréttingum og búnaði.
- Bruðl Landsbankans vegna nýja hússins er sorglegt en ennþá verra er að ríkið skyldi kaupa hluta af byggingunni undir tvö ráðuneyti sem prýðilega fór um þar sem þau voru. Um er að ræða útbyggingu frá bankahúsinu en þar á að koma fyrir utanríkisráðuneytinu, sem prýðilega hefur farið um á Rauðárstíg, og einnig hinu óþarfa ráðuneyti sem var tjaslað samanmeð ærnum tilkostnaði við myndun seinni vinstri stjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Hér er um að ræða ráðuneyti háskólamála o.fl. sem var illu heilli klofið út úr menntamálaráðuneytinu til að Sjálfstæðisflokkurinn gæti haldið Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur inni í ríkisstjórninni. Húsnæðið kostaði hrátt um sjö milljarða króna en þá á eftir að telja allan kostnað við innréttingar, húsgögn og tölvu-og tæknibúnað. Þetta gæti tvöfaldað fjárfestingu ríkissjóðs í þessu óþarfa montdæmi. Heildarútgjöld ríkisins gætu farið í 12 til 15 milljarða vegna þessa, þegar öll kurl verða komin til grafar.
- Þá má nefna vanhugsaða tilraun til að stækka gamla stjórnarráðshúsið við Lækjartorg með skelfilegu glerhýsi inni á lóð hússins. Þessi framkvæmd hefur verið núverandi forsætisráðherra mikið áhugamál í mörg ár en hefur nú sem betur fer verið lagt formlega til hliðar. Ekki verður veitt meiri fjármunum til verksins á næstu fjárlögum og verður að líta svo á að vitinu hafi verið komið fyrir þá sem stóðu að þessari afleitu hugmynd. Stjórnarráðshúsið hefur sterkan svip þar sem það er og mikilvægt er að misvitrir ráðamenn nái ekki að skemma stöðu þess og þá sterku mynd sem það skapar í hjarta höfuðborgarinnar. Þegar tilkynnt var að búið væri að leggja þessi stækkunaráform til hliðar var einnig upplýst að þegar væru komnar 500 milljónir króna í dæmið. Ríkissjóður hefur þegar hent út um gluggann 500 milljónum króna í þetta misheppnaða montbrölt.
- Unnt væri að telja upp mun fleiri vond dæmi um skort á ráðdeild í meðferð ríkispeninga vegna fjárfestinga í umgjörð um yfirstjórn landsins. Hér verður látið nægja að nefna eitt ljótt dæmi að lokum þar sem ríkið leiddist út í fjárfestingu að kröfu forystumanna Framsóknarflokksins sem gengu erinda Bændasamtaka Íslands sem riðuðu á barmi gjaldþrots vegna fjárhagsstöðu bændahallarinnar sem hýsti Hótel Sögu.
Arion-banki var með eignina veðsetta upp í topp fyrir 5 milljarða láni þegar eignin var sett í sölu. Aðilar í ferðaþjónustu voru með til alvarlegrar skoðunar að kaupa húsið og hótelið. Tekist var á um verð milli fjárfestanna og bankans. En þá mun hafa komið upp að greiða þyrfti eitthvað hærra verð fyrir fjárfestinguna en í boði var til að tryggja að Bændasamtök Íslands yrðu ekki gjaldþrota.
Við þær aðstæður krafðist forysta Framsóknar þess í ríkisstjórninni að ríkisstofnanir keyptu húsið við hærra verði en í boði var til að tryggja stöðu Bændasamtakanna. Háskóli Íslands sá sér leik á borði að ná eigninni til sín og Félagsstofnunar stúdenta undir kontóra fyrir háskólann annars vegar og íbúðir fyrir stúdenta hins vegar. Báðar þessar stofnanir eru vitanlega á framfæri ríkisins og því var með beinum og óbeinum hætti um ríkisfjárfestingu að ræða. Ráðist var í gífurlega kostnaðarsamar viðgerðir, breytingar og endurbætur á húsinu og nú er því spáð að heildarkostnaður vegna þessa fjárfestingarslyss verði ekki undir 20 milljörðum króna, loksins þegar þessum æfingum öllum lýkur. Hér er ekki einungis um fjárfestingarslys í boði ríkissjóðs að ræða – heldur einnig er hér um alvarlegt menningarslys að ræða því Hótel Saga var höfuðprýði í sínu upprunalega hlutverki en verður það ekki lengur.
Já, er nema von að nýr fjármálaráðherra vilji sýna ráðdeild og „velta hverri krónu“ ríkisfjármálanna!
Engu að síður hljóma yfirlýsingar hennar heldur ankannalega því að hún hefur sem þingmaður, ráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins tekið þátt í að samþykkja allt bruðlið í monthúsin sem fjallað er um hér að framan.
- Ólafur Arnarson