Í enn einni skoðanakönnun Gallups mælist Samfylkingin stærri en Sjálfstæðisflokkurinn. Mæling sem gerð var allan febrúarmánuð, og birt á fimmtudaginn ,sýnir að Samfylkingin mælist með 24 prósenta fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn með 22,5 prósent. Samfylking fengi 17 þingmenn kjörna, meira en tvöfaldar þingmannafjölda sinn frá kosningunum í september 2021, en Sjálfstæðisflokkurinn tapar einum þingmanni af þeim sem hann fékk þá kjörna, auk þess félli sá þingmaður sem gekk í flokkinn viku eftir kosningar úr Miðflokknum. Þingmannafjöldi Sjálfstæðisflokksins fer því úr 17 í 15 samkvæmt þessari nýju skoðanakönnun Gallups.
Ítrekað gerist það að Sjálfstæðisflokkurinn mælist ekki lengur stærsti flokkur landsins í skoðanakönnunum. Hann verður að gera sér annað sætið að góðu. Ljóst er að þegar Kristrún Frostadóttir var kjörin formaður Samfylkingarinnar, síðasta haust, urðu straumhvörf í Íslenskum stjórnmálum. Kristrún virðist sópa fylgi til flokksins og ekki í skamman tíma, heldur ítrekað, í skoðanakönnun eftir skoðanakönnun.
Fylgið sem rennur nú til Samfylkingarinnar í stríðum straumum kemur ekki síst frá rikisstjórnarflokkunum, einkum VG og Framsókn en einnig eitthvað frá Sjálfstæðisflokknum. Allir ríkisstjórnarflokkarnir tapa fylgi og þingsætum. Framsókn missir sex þingmenn frá kosningunum, VG missir fjóra og Sjálfstæðisflokkurinn einn, auk þess þingmanns sem gekk í flokkinn viku eftir kosningar. Þannig eru 12 þingmenn fallnir úr liði ríkisstjórnarinnar samkvæmt nýjustu skoðanakönnun.
Í stjórnmálunum áttar fólk sig nú á því að Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, verður ekki stöðvuð nema aðrir flokkar bregðist við af ískaldri alvöru. Núverandi leiðtogar annarra flokka hafa ekki roð við henni. Kristrún er ný, ung, spennandi og klár, stjórnmálamaður sem stígur fullsköpuð inn á sviðið og ber með sér ferskan svip. Þó að hugmyndir hennar séu hvorki nýjar né merkilegar, virðast þær ná til kjósenda.
Leiðtogar hinna flokkanna eru flestir gamlir í hettunni, ýmisst á sextugs- eða sjötugsaldri og farnir að virka á kjósendur sem rispaðar grammafónsplötur. Þess vegna hittir hin unga og ferska Kristrún beint í mark.
Hvernig eiga hinir flokkarnir að bregðast við vilji þeir ekki missa forystuna og völdin til Samfylkingarinnar?
Svarið felst í því að skipta um fólk í brúnni. Hjá Sjálfstæðisflokknum er hægt að ganga hratt til verks og gera breytingar, hafi forysta flokksins kjark til þess. Margt bendir til þess að Bjarni Benediktson, formaður flokksins, muni senn hverfa af vettvangi stjórnmálanna. Þá tekur varaformaðurinn við, Þórdís Korbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. Hún er ung að árum, á aldur við Kristrúnu Frostadóttur, en komin með talsverða reynslu sem ráðherra. Hún hefur gegnt ráðherraembættum frá byrjun árs 2017, í sex ár, fyrst sem iðnaðarráðherra og síðar utanríkisráðherra. Þórdís er augljóstútspil Sjálfstæðisflokksins gagnvart þeim kynslóðarskiptum sem þurfa að verða í íslenskum stjórnmálum hjá þeim flokkum sem ætla sér að ná árangri.
Bjarni Benediktsson hefur setið á þingi í 20 ár, frá 2003, gegnt ráðherraembættum í 10 ár, samfleytt frá vorinu 2013 og verið formaður Sjálfstæðisflokksins í 14 ár, frá vorinu 2009. Einungis Ólafur Thors hefur gegnt stöðu formanns Sjálfstæðisflokksins lengur en hann. Ólafur stóð þá vakt í aldarfjórðung. Bjarni hefur því skilað sínu fyrir flokkinn og getur stigið af sviðinu hvenær sem er. Ekki þyrfti að koma á óvart þó að uppgangur Samfylkingarinnar og hins nýja formanns þar á bæ yrði til að flýta brottför Bjarna og valdatöku Þórdísar. Þess vegna gæti það gerst á komandi sumri. Leystist þá um leið sá mikli vandræðagangur sem nú blasir við í flokknum vegna fyrirhugaðrar brottfarar Jóns Gunnarssonar úr ríkisstjórninni og inngöngu Guðrúnar Hafsteinsdóttur, sem bíður í vandræðalegri stöðu eftir því að forysta flokksins efni við hana óljóst loforð um ráðherradóm.
Framsóknarmenn verða einnig að hugsa sinn gang hratt, en flokkurinn hefur misst 6 þingmenn ef marka má nýjustu skoðanakönnun Gallups. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður flokksins og ráðherra vann góðan PR-kosningasigur síðast. Það verður vart toppað og nú er ferðin niður á við hafin. Sigurður gerði rétt í að víkja sem fyrst og hleypa yngra fólki að.
Ásmundur Einar Daðason er sá sá þingmaður og ráðherra flokksins sem hefur sýnt ótvíræða forystuhæfileika og virðist augljós arftaki Sigurðar ætli flokkurinn að ná árangri áfram. Ekki er vitað hvert hugur Sigurðar stefnir nú en hann hefur átt sæti á Alþingi frá árinu 2009 og gegnt margvíslegum ráðherraembættum, tók meðal annars við embætti forsætisráðherra árið 2016, þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði af sér embætti.
Ekki verður séð að Vinstri græn hafi marga kosti, ef nokkra, til að hressa upp á ímynd flokksins eftir stöðugt fylgishrun frá því að Katrín Jakobsdóttir myndaði vinstri stjórn sína í árslok 2017, þá með 17 prósenta fylgi á bak við sig. Nú mælist flokkurinn með kringum sex prósent og er að því er virðist rúinn vinsældum og trausti. Í forystu VG er ekkert þaðmannval sem gæti komið flokknum upp úr núverandi hjólförum.
Enn. fremur má ætla að aðrir stjórnmálaflokkar á þingi, Viðreisn, Píratar, Flokkur fólksins og Miðflokkurinn, hugsi sinn gang í ljósi breyttra aðstæðna í stjórnmálum á Íslandi. Víst er að ekkert verður eins og verið hefur. Ríkisstjórnin mæliost nú með minnsta stuðning frá upphafi og allir þrír stjórnarflokkarnir tapa fylgi og þingmönnum samkvæmt umræddri Gallup könnun.
Hið svokallaða Reykjavíkurmynstur, eins og nú er við völd í borgarstjórn Reykjavíkur, virðist vera sá kostur sem kallað er eftir miðað við niðurstöðu þessarar könnunar. Samfylking, Viðreisn, Framsókn og Píratar fengju 37 þingmenn kjörna ef marka má könnunina. Kristrún Frostadóttir gæti þá myndað áhugaverða ríkisstjórn frá miðju og til hægri.
- Ólafur Arnarson.