Þóra kristín er frábær fréttamaður

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir er frábær fréttamaður. Hún aðhyllist þann blaðamannaskóla að lyfta röddum jaðarsettra, tækla valdið, spyrja áleitinna spurninga. Þóra Kristín er fjórða valdið holdi klætt en gæti þegið meiri liðsstyrk úr röðum okkar annarra blaða- og fréttamanna.

Við höfum vanist krítískri umræðu um fjölmiðla og fjölmiðlafólk. Sannarlega er af mörgu að taka þar líkt og á svo mörgum öðrum sviðum. Færa má rök fyrir að hluti stjórnmálanna sem og ráðandi viðskiptaöfl ýmis hver séu gjörspillt, að samtrygging embættismanna og valdhafa hafi stórskaðleg áhrif á samfélagið. Þáttur fjölmiðlunar til að viðhalda þessu kerfi kann að vera töluverður. En stundum gleymist að hrósa því sem vel er gert.  Á öllum tímum má finna blaða- og fréttamenn sem eru óhræddirað hjóla í valdið, stinga á kýlum, berjast fyrir sjálfstæði sínu með hverri frétt, leggja starf sitt undir og missa það fremur en að lúffa fyrir sérhagsmunum eða þrýstingi eigenda.

Þóra Kristín er dæmi um allt þetta. Hvort sem hún leggur leið sín yfir í Reykjanesbæ sem fréttamaður á Stöð 2 til að spyrja spurninga um stóriðjur og íbúalýðræði eða sýna okkur í fréttatíma sýrlenskt stúlkubarn sem vinnur hug og hjarta þjóðarinnar einn, tveir og þrír með því að romsa upp úr sér því sem okkur er kærast, íslenskum orðum! (Erum ekki komin lengra) Með íslensku orðunum slógu Þóra Kristín og sýrlenska stúlkan í gærkvöld mörg vopn úr höndum þeirra sem hatast við allt sem þeim þykir framandi.

Allt ber að sama brunni. Þóra Kristín er 365 ómetanleg auðlegð. Ég tók fyrst eftir henni þegar hún negldi Árna Johnsen í símaviðtali, þjófinn Árna Johnsen. Margt fleira gott er á ferilskránni.

Vonandi átta eigendur samsteypunnar sig á mikilvægi þess að gagnrýnin og sjálfstæð fréttamennska er hverju samfélagi mikilvægust og Þóra er í hópi kyndilbera Íslands í þeirri ferð. Það sem skapar gagnrýnin og sjálfstæð vinnubrögð í blaðamennsku er ekki illur hugur - heldur mennska og væntumþykja gagnvart almannahagsmunum. Það er miklu auðveldara að renna hina götuna blindandi og hossa valdinu. Hugsum til þess næst þegar við bölvum fréttamanni sem leggur starf sitt undir í rimmu við ráðandi öfl.